Friday, May 30, 2008

Jerúsalem kvödd



Mikið rosalega eru málin flókin hérna og ég er ekki einu sinni komin á Vesturbakkann. Klukkan hálf sjö í morgun fórum við Yousef með fjöldkyldunni sem við gistum hjá í dagsferð, á vegum kvenfélags sem móðirin vinnur fyrir, norður að sjá Gólan hæðir og Gallilee. Við fórum öll saman í rútu, örugglega 40-50 manns og keyrðum af stað austur fyrir Jerúsalem og Jeríkó og norður meðfram Jórdaná (sjá kort). Við keyrðum sem sagt mest allan tímann innan Vesturbakkans eins og hann er sýndur á kortum. Ég varð hins vegar ekkert vör við það þá tvo klukkutíma sem aksturinn tók; sá ekki eitt einasta skilti á arabísku, né nokkuð sem minnir á palestínska menningu (myndin fyrir neðan sýnir ræktunarsvæði Ísraela á palestínsku landi). Kortið að ofan sýnir hvernig Vesturbakkinn er orðinn. Hann er ekki lengur Palestína. Á framtíðar Palestína að vera fullt af litlum afgirtum bæjum með engin innbirgðis tengsl og Gaza þarna niðurfrá algerlega einangruð?



Það er nú ekkert skrítið að ég hafi ekki orðið vör við Palestínu á leiðinni enda mega flestir Palestínumenn ekki einu sinni keyra þennan veg, né yfirgefa heimaborg sína ef út í það er farið. En Palestínumaður er ekki það sama og Palestínumaður. Þetta ræðst eftir því hvar þú ert fæddur. Ef þú ert Palestínumaður frá í Austur-Jerúsalem færðu ísraelskt skilríki (dvalarleyfi í raun og veru) en ekki ríkisborgararétt. Þú mátt ferðast innan Ísraels TILTÖLULEGA óáreittur og þarft ekki til þess sérstakt leyfi. Það á til dæmis við um fólkið sem ég var að ferðast með í dag. Rútan okkar var "bara" stoppuð fjórum sinnum. Við þetta má bæta að það er nánast ómögulegt fyrir þá sem eru frá A-Jerúsalem að komast á Vesturbakkannn.

Svo eru það Palestínumenn sem eru búsettir á Vesturbakkanum. Þeir fá palestínskt skilríki, engan ríkisborgararétt og þurfa að fá sérstakt leyfi frá ísraelskum yfirvöldum til þess að fá að fara út fyrir afgirtan heimabæ sinn. Þetta leyfi fá þeir sjaldnast og þarf ástæða fyrir leyfinu að vera mjög brýn og sækja þarf um leyfið langt fram í tímann, en þau eru sjaldnast veitt. Ég veit ekki hvernig ég yrði ef ég þyrfti að sækja um sérstakt leyfi til þess að heimsækja systur mína niðrí bæ. Yousef var einmitt að segja mér sögur af því að fjölskyldur mætist sitt hvoru megin við múrinn og hrópi kveðjum sín á milli.

Ég treysti mér ekki einu sinni til þess að tala um Palestínumenn á Gaza. Þeir fá alla vega ekki að fara neitt. Ég myndi samt ekkert frekar vilja vera fædd í Ísrael. Ekki myndi ég vilja eiga hlut í kúgun á Palestínumönnum, vera skyldug til að ganga í her eða einfaldlega vera sama.




En alla vega, þá fórum við í þessa stórkostlegu ferð í dag og komum ekki heim fyrr en undir miðnætti. Fyrst stoppuðum við á strönd við Gallilee og borðuðum hádegismat. Eftir mat tóku eldri konurnar upp trommurnar og fóru að syngja og dansa á meðan að þær yngri fóru með krakkana út í vatnið að leika sér.



Svo heimsóttum við annað kvenfélag alveg við landamæri Sýrlands þar sem íbúarnir eru flestir Drúsar. Þar var heljarinnar útihátíð þar sem fólk var að selja alls konar heimatilbúið dót.



Síðasta stoppið var aftur við Gallilee vatnið þar sem við boðuðum kvöldmat. Þetta leit alveg hræðilega illa út en var alveg sjúklega gott. Mér skildist að þetta væru fyllt laufblöð með hrísgrjónum og fyllt elduð eggaldin með hrísgrjónum. Svo var auðvitað brauð og hummus með.



Meira að segja rútuferðin var skemmtileg. Allar konurnar sungu og börðu á trommurnar og skiptust á að rétta hljóðneman milli sín. Meira að segja litlu börnin komu fremst og sungu. Þó svo að ferðin hafi verið löng er ég mjög þakklát fyrir að fá að hafa verið hluti af þessum degi með þessum frábæru konum.

Á morgun liggur svo leið okkar Yousefs til Ramallah og í framhaldi að því ætlum við að reyna að komast inn í Nablus, en þar mun ég byrja að kenna skyndihjálp á mánudaginn kemur. Veit ekki hvað verður en ég vona að það náist ágætis netsambandi þar sem ég verð.

Wednesday, May 28, 2008

Komin!!!!

Það er skrítið að vera komin aftur til Palestínu. Ég áttaði mig strax á því þegar við Yousef komum til Jerúsalem að sá kvíði sem ég bar til ferðarinnar var einungis tengdur fluginu og flugvellinum því mér líður alveg afskaplega vel núna þegar maður kominn.

Við lentum í Tel Aviv í gærmorgun kl. 5:30 og ákváðum að labba saman gegnum vegabréfseftirlitið í von um að það yrði auðveldara fyrir okkur að komast í gegn. En svo reyndist ekki. Ég afhenti stúlkunni, sem var örugglega tæplega tvítug, vegabréfið mitt og sagðist ætla að ferðast um Ísrael, Jórdaníu og Egyptaland og hún tók því vel. Svo spurði hún Yousef hvað hann ætlaði sér að gera í ríki Ísraelsmanna en þegar hann sagðist ætla heimsækja ættingja í Jerúsalem hugsaði hún sig um í nokkrar sekúndur og ákvað svo að hleypa mér í gegn en halda Yousef eftir.

Það tók ættingja Yousefs ekki langan tíma að hafa upp á mér á flugvellinum þar sem ég var ein ráfandi um flugvöllin. Þau tóku mér fagnandi og við tók endalaus bið eftir að Yousef yrði hleypt í gegn. Hann náði að láta mig vita öðru hvoru með sms-um hvernig málin stæðu og svo loks eftir 5 klukkutíma "öryggiseftirlit" kom hann loks. Ættingjar Yousefs keyrðu okkur heim til þeirra í Jerúsalem þar sem okkar beið langþráður morgunmatur að hætti heimamanna, brauð, hummus, falafel, egg og grænmeti.



Eftir morgunmat lögðum við okkur í nokkrar klukkustundir áður en við fengum kvöldmat. Eftir mat keyrðum við í mini útsýnisferð um Jerúsalem og fórum svo heim til föðursystur Yousefs og frænda hans, skiluðum dótinu okkar og kíktum með frændanum og vinkonu hans á kaffihús.



Í dag kíktum við Yousef aðeins inn í gömlu borgina en tókum svo rútu til Betlehem. Þar sem við höfðum bæði komið þangað áður nenntum við ekki að skoða kirkjurnar og allt það þannig að við röltum bara um borgina. Við sáum háskólann í Betlehem, UNWRA og fleiri áhugavert. Það reyndist okkur ekkert sérstaklega erfitt að komast gegnum check point-ið enda mjög vinsæll ferðamannastaður. Frá því að ég kom síðast 2005 hafa Ísraelar klárað byggingu múrsins umhverfis Betlehem og sett upp alveg heljarinnar varstöð við innganginn í borgina. Það er risastórt járnhlið á múrnum sem hægt er að loka hvenær sem er og þannig loka íbúa Betlehem inni hvenær sem ástæða þykir til. Það fáranlegast af öllu var risa plakat við hliðina á járnhliðinu sem á stendur "Peace be with you".



Svo í kvöld fórum við með frændanum og vinkonu hans til Tel Aviv eða Tel Rabia á ströndina, drukkum bjór og slökuðum á. Það var mjög gaman að keyra þangað en frændinn keyrði á 160 km/klst með opna glugga og palestínsk tónlist á hæstu stillingu.