Saturday, June 28, 2008

Tvær helgar: Haifa og Hebron

Mynd sem sýnir framtíðar legu aðskilnaðarmúrsins

Við Íslendingarnir fórum til Haifa um síðustu helgi á ráðstefnu sem að palestínsk og alþjóðleg samtök stóðu fyrir. Á ráðstefnunni var fjallað um "eins ríkja lausnina", þ.e.a.s eitt ríki þar sem Ísraelar og Palestínumenn lifa í sátt og samlyndi og búa við sömu réttindi í einu landi. Þessi hugmynd er frekar ný af nálinni og hefur náð auknum vinsældum meðal Palestínumanna sem búa innan Ísrael proper. Hingað til hefur mikið verið rætt um svokallaða "tveggja ríkja lausn" eða "road map to peace" meðal stjórnarleiðtoga Ísraels og Palestínu með stuðningi frá Sameinuðu þjóðunum, BNA, Rússlandi og Evrópusambandinu. Sú lausn virðist hins vegar vera að renna út í sandinn enda heldur Ísraels áfram byggingu aðskilnaðarmúrsins, sem er að mestu leiti innan grænu línunnar (aðeins 20% aðskilnaðarmúrsins er á grænu línunni), leggur undir sig stöðugt meira landsvæði með stofnun ólöglegra landnemabyggða og heldur uppi stöðugum hræðsluáróðri um að Palestínumenn séu hættulegasta fólk veraldar. Meira að segja Palesínumenn sem búa í Ísrael proper tala um að Nablus sé stórhættuleg.

Við krakkarnir í sápuverksmiðjunni

Síðasta vika hefur verið ansi annasöm þar sem ég hef verið að kenna mína tíma (skyndihjálp og enskutíma) og tímana hans Abe vegna þess að hann fór til Yanoun í viku. Þar er hann að leysa af alþjóðlegu sjálfboðaliðana sem eru þar allan ársins hring. Mig langaði að kíkja til hans og vera nokkrar nætur en það var ekki hægt.
Á fimmtudaginn síðasta fórum við krakkarnir hjá Project Hope til Beit Furík, sem er rétt fyrir Nablus, að pakka sápum sem við seljum svo alþjóðlegum samtökum til fjáröflunar. Fyrsta klukkutímann var þetta bara þræl skemmtilegt en þegar leið á daginn var maður orðinn ansi þreyttur. Á leiðinni aftur til Nablus biðum við í hálftíma eftir því að fá að komast í gegnum check point-ið og einum palestínska sjálfboðaliðanum var bannað að fara gegnum check point-ið nokkru sinni aftur. Hermaðurinn gaf hins vegar enga ástæðu fyrir því.

Hermennirnir í Hebron

Talandi um hermenn...Við fórum 6 sjálboðaliðar frá Project Hope í ferð á vegum Breaking the Silence til Hebron. Í Hebron er einstakt ástand en þar búa um 400 landnemar innan um 170.000 Palestínumenn. Saga Hebron er full af skelfilegum fjöldamorðum, átökum, refsi- og hefndaraðgerðum og svo lengi mætti telja. Það sem stendur kannski mest upp úr eru Hebron fjöldamorðin 1929 og Goldstein fjöldamorðin 1994. Til að gæta öryggis í Hebron er þar um 500 hermenn sem hafa það hlutverk að vernda landnemana og um 30 lögreglumenn sem eiga að tryggja almennt öryggi. Eins og hægt er að lesa um á heimasíðu Breaking the Silence eru þetta samtök um 550 fyrrverandi hermanna sem flestir sinntu herskyldu í Hebron og vilja vekja athygli á ástandinu þar og rjúfa þögnina um það sem á sér stað. Ég þýddi smá úr bók sem inniheldur vitnisburði hermanna sem samtökin gefa út...ég er enginn atvinnuþýðandi samt sem áður:



“Síðusta árið hefur Breaking the Silence safnað vitnisburðum hundruða ísraelskra hermanna (IDF) sem sinnt hafa herskyldu á herteknu svæðunum á tímum síðustu átaka (seinni intifötu). Þessir vitnisburðir sýna þann ómögulega veruleika sem blasir við þessum hermönnunum, og þann siðferðislega toll sem þessi raunveruleiki krefst. Valið safn þessara vitnisburða hefur verið gefið út í vitnisburðasafni í nafni Breaking the Silence.

Safnið að þessu sinni er ekki bara eitt vitnisburðasafnið í viðbót sem sýnir andstyggilega rútinu raunveruleiks á hernumdu svæðunum eða sífellt brenglaðri og lægri siðferðisgildi hermannanna, heldur er sjónum beint að fyrirmælum ísraelska hersins (IDF), reglur bardaga og framkvæmd aðgerða. Safnið sýnir alvarlega mynd af því sem reynist vera títt gefnar ólöglegar skipanir á hinum ýmsu stöðum og tímum: árásir á óbreytta borgara sem ógna engum, hefndaraðgerðir, viljandi árásir á björgunarsveitir og fleira. Safnið afhjúpar dýpt siðferðislegrar spillingar meðal stjórnanda innan hersins og myrkur siðferðislegrar skynjunar sem hefur dreift sér til æðstu stjórnenda... Svo virðist vera að sjálfsskoðunarkerfi ísraelska hersins hafi einnig brugðist skyldum sínum. Þetta á einnig við um eftirlitskerfi borgara og þingsins sem hafa, á tímum undanfarinna átaka, endurtekið forðast það að gagnrýna almennar aðfarir hersins, og þá sérstaklega hvað varar reglur bardaga... Siðmenntað og mannsæmandi samfélag getur ekki viðhaldist án stöðugs eftirlits og gagnrýni öflugustu stofnana sem stafa innan þess. Breaking the Silence krefst þess vegna að stofnuð verði sjálfstæð nefnd almenningseftirlits, sem mun virkja ábyrrgðarfulla afhjúpun og rannsókn á staðreyndum.

Það að hlusta og axla ábyrgð er það allra minnsta sem ætlast er til af samfélagi og fulltrúum þess í siðmenntuðu og mannsæmandi samfélagi sem byggt er á grunvallar siðferðilegum gildum. “

Vitni: Starfsmannaliðþjálfi, Paratroops

Staður atviks: Nablus

Dagsetning: lok 2003

Það var aðgerð þar sem við áttum að fara inn í borgina. Við kölluðum aðgerðina “Yossi Bachar’s terror show”. Yossi Bachar var tekin við af Aviv Kohavi. Þú veist, allir nýjir flokksforingjar (brigade commander) vilja skilja eftir sig far, vilja byrja með stæl. Hann kom okkur í algerlega tilgangslausa aðgerð...og í lok þessarar aðgerðar kom að því að við komum fyrir svokölluðum ‘New Jersey’ vegatálmum, þessum plast vegatálmum. Þannig að við vorum að koma þessum ‘New Jersey’ vegatálmum fyrir, og liðsveitarforinginn (battalion commander) gaf fyrirmæli...vegna þess að settum vagatálmana til þess að stöðva umferð...í Nablus...Svo ég komi mér að efninu, við komum þessum vegatálmum fyrir og krakkarnir þar, þessir sem eru alltaf að kasta steinum, komu og færðu vegatálmana úr stað. Þetta var alger óreiða. Við gátum ekki...Í upphafi settum við vegatálmana og íbúarnir fjarlægðu þá, þannig að við settum þá aftur á sinn stað, og svo voru uppþot og steinum var kastað og þar varð alger óreiða. Þá gaf liðsveitarforinginn fyrirmæli: ‘Hver sá sem snertir vegatálmana á að skjóta í fæturnar’. Alvöru skot. Skjóta fæturna. Við áttum, ég átti, að gera það. Í herbílnum töluðum við saman, og við spurðum hvort hann væri genginn af göflunum; ef einhver snertir vegatálma – eigum við að skjóta hann í fótinn? Við héldum að hann væri bara að grínast. Liðsveitarforinginn fannst greinilega mjög mikilvægt að setja persónulegt fordæmi. Á vegartálma kom hann að – ég var ekki persónulega þar, en krakkarnir úr foringjasveitinni (commanding crew)...Þetta var reyndar þekkt mál: maðurinn ók jeppa við hlið vegatálma og sá krakka snerta hann – úr einhverri fjarlægð víst – og miðaði á fótinn á krakkanum. En, þú veist, í stað þess að hitta krakkann í fótinn hitti hann í bringuna á honum, og drap hann. Fyrir að snerta vegatálma. Ef þú afsakar mig, þá finnst mér það að snerta vegatálma ekki vera ástæða til að vera drepinn.

Hvernig vissuru að krakkinn væri dauður?

Heyrði það. En krakkinn er dáinn. Þetta er vel þekkt saga. Við komum aftur að herstöðinni eftir aðgerðina, við töluðum saman, og svo sögðu krakkarnir sem voru með foringjasveitinni: ‘Hey krakkar, *** drap krakka, krakkamorðingi, krakkamorðingi, hann drap krakka.’ Þau sögðu okkur söguna. Fólk sem sá þetta gerast. Ég er nokkuð viss. Ég held að enginn hafi farið og athugað púlsinn hjá krakkanum, en fáir krakkar lifa það af að vera skotnir í bringuna.”

Bæði hermenn og lögregla þurfti að vernda hópinn gegn ágangi landnema

Móttökur landnemanna í Hebron voru vægast sagt ýktar. Um leið og rútan okkar kom að check point-inu inn í Hebron hljóp að okkur hópum landnema og byrjaði að áreita hópinn með öskrum og látum. Okkur var sagt áður en við fórum út úr rútunni vorum við vinsamlegast beðinn um að svara ekki landnemunum, það væri nákvæmlega það sem þeir vildu. Ég var spurð hvar amma mín og afi hafi verið fyrir 60 árum, af hverju ættingjum mínum fyndist gaman að drepa gyðinga, hvort mig langaði til að drepa alla gyðinga, hver borgaði mér fyrir að koma hingað, hvað ég tæki mikið fyrir nóttina (sem átti örugglega að gefa í skyn að ég væri hóra), af hverju ég væri að reyna að stela landinu þeirra, af hverju ég væri svona heimsk, af hverju ég kæmi til Hebron þar sem kristnir eigi engan rétt á því og ásamt fleiri spurningum sem ég skyldi ekki alveg...eitthvað um að ég hafi ekki verið fædd þegar Jesú var þar eða eitthvað álíka.

Það er rosalega erfitt að lýsa því sem maður sá og fann í Hebron þannig að ég ætla að leyfa nokkrum staðreyndum að fylgja með hérna í lokin:

*Að minnsta kosti 1.014 palestínsk hús, eða um 42% íbúða í miðbæ Hebron, hafa verið yfirgefin. 65% eða 659 tómu íbúðanna voru yfirgefnar í seinni intifötunni.

*Af þeim palestínsku rekstrum sem voru á svæðinu, er um 1.829 þeirra, eða 77% lokuð. Þar af var um 62% (1.141) lokað í seinni intifötunni og af þeim var a.m.k 440 lokað samkvæmt fyrirmælum hersins.

*Frá upphafi seinni intifötunnar og þangað til í maí 2007 hafa palestínumenn í Hebron drepið 5 óbreytta ísraelska borgara, þar á meðal 11 mánaða gamalt barn, og 17 meðlimi ísraelskra öryggissveita.

*Á sama tíma drápu ísraelskar öryggissveitir í Hebron a.m.k 88 Palestínumenn, þ.á.m 46 sem (líka ungmenni) sem ekki tóku þátt í átökum. Auk þess voru tveir Palestínumenn drepnir af ísraelskum óbreyttum borgurum: einn strax eftir að hann drap landnema og hinn var 14 ára stúlka sem var skotin heima hjá sér.

Wednesday, June 18, 2008

Íslendingafélagið í Nablus (ÍN)


Íslendingafélagið hérna í Nablus kom saman í gær og hélt upp á 64 ára sjálfstæði Íslands. Að félaginu standa fjórir ungir Íslendingar sem hafa, þrátt fyrir yndislega dvöl í Palestínu, ekki gleymt sínu fagra föðurlandi.
Palestínkur vinur okkar frétti af afmæli lýðveldisins (frá okkur Íslendingunum) og tók ekki annað í mál en haldið yrði upp á afmælisdaginn. Hann eldaði fyrir okkur alveg rosalega góðan lambakjötsrétt, 20x30 cm íslenskur fáni (sem Björgin mín gaf mér) var dreginn að hún (Einar hengdi hann upp með tannþræði á ljóskrónu við útidyrnar) og við spiluðum íslenska tónlist úr tölvunni minni (og europop sem palestínski strákurinn kom með...þorðum ekki annað).
Já þetta var ágætis kvöldstund hjá okkur Íslendingunum.

Annars er það að frétta að ég er búin að vera á fullu að skrifa skyndihjálparbæklinginn og er að fara kenna fólki á mínum aldri ensku. Ég tek við bekknum af öðrum kennara hér hjá Project Hope of fer með honum á eftir að kynnast þeim. Seinna í dag kenni ég svo bekknum hans Abe í forföllum og hef hugsað mér að tala bara aðeins um Ísland og Íslendinga en sé svo bara til með hinar 85 mínúturnar. Næsta skyndihjálparnámskeið hefst svo á þriðjudaginn.
Um helgina ætlum við strákarnir, eða bara ég, með öðrum frá Project Hope til Ramallah og svo er ég að spá að fara jafnvel alla leið til Haifa, en þar fer fram ráðstefna um framtíð Ísraels og Palestínu. Mig er líka farið að dauðlanga að spranga um á sundfötunum á ströndinni og synda í sjónum í stað þess að vera í tvöföldum síðerma bol og síðbuxum í þessum brjálæðis hita. Held af Haifa sé málið, vera þar á föstudag, laugardag, sunnudag og koma heim á mánudaginn.
Sjáum til...

Saturday, June 14, 2008

Það má finna allt í Palestínu


Ungur Palestínumaður sagði við mig um daginn að það mætti finna allt í Palestínu. Ég er smám saman að átta mig á því að það hljóti að vera satt. Maður er alltaf að sjá eitthvað sem maður gerir ekki ráð fyrir að finna hér. Til dæmis var ég frá mér numin þegar ég heimsótti nýja Najah háskólann hérna í Nablus sem minnir helst á geimvísindastöð innan í gríðarstóru musteri.
Ég var líka frekar hissa í Ramallah á fimmtudagskvöldið þegar ég fór á útiskemmtistað. Hef sjaldan séð eins fallegan stað. Gengið var niður steinstöppur, sem liggja innan um stór pálmatré, jurtir og blóm, til þess að komast að skemmtistaðnum sem var, eins og við mátti búast, í útjaðri Ramallah. Skemmtistaðurinn var í afskekktum dal og umkringdur trjám. Þarna var bar, bál, dansgólf, hlaðborð, sundlaug og fullt af fólki, palestínsku og alþjóðlegu. Já það var sundlaug sem kallar og konur máttu fara í saman. Ég fékk nú bara smá menningarsjokk á því að vera þarna. Í Nablus get ég ekki einu sinni sest með strákunum á venjulegt kaffihús.
Maður getur nú bara ímyndað sér að Reykjavík væri Nablus og Keflavík væri Ramallah. Fjarlægðin er nú ekki meira en það.

Á föstudaginn fór ég með Abe til Tel Aviv að sækja frænda hans. Íslensk, ljóshærð og ung kona í framsætinu á hvítu rúgbrauði við hliðina á tvífara Osama bin Laden og fjórir arabískir, miðaldra karlmenn aftur í. Ísraelsku hermönnunum á check point-unum fannst þetta skrítin vinahópur.

En hey, það má finna allt í Palestínu!


P.S. Tékkið á þessummyndum af okkur og þorpskonum á skyndihjálparnámskeiði á heimasíðu sem er tengd SÞ.

Wednesday, June 11, 2008

Project First Aid Manual

Jæja, þá er síðasta skyndihjálparnámskeiðið í bili búið og næsta runa byrjar 22. júní. Þá verð ég að gjöra svo vel að vera reiðubúin að standa að kennslunni á eigin spýtur því Jenny fór í dag. Reyndar fengum við Yousef það í gegn í dag að hann muni vera "fórnarlambið" mitt þegar námskeiðin byrja aftur. Næsta eina og hálfa vikan fer svo í undirbúning næstu námskeiðarunu. Ákveðið hefur verið að ég muni halda heilsueflingar- og skyndihjálparnámskeið í tvem þorpum, Beit Dejan og Al Badan, einu sinni í viku í fjögur skipti. Uppkast að námstilhöguninni lítur svona út í augnablikinu:

1. vika - VEIKINDI (astmi, heilahimnubólga, botnlangabólga, hjartaáfall og heilablóðfall, flogaveiki og bráðaofnæmi)
MEIÐSLI (bit og stungur, sólstingur, ofkæling, tognun, beinbrot og mænuáverkar)
2. vika - BLÆÐING OG SJOKK (innvortis/útvortis, blóðnasir, skurðir, sáraumbúnaður, alvarlegur blóðmissir og sjokk)
BRUNASÁR (yfirborðs/hluta/fullþykktar bruni, mat á bruna og meðferð)
3. vika - LÆST HLIÐARLEGA (mat á meðvitund og öndun og hliðarlega fyrir fullorðna, börn og smábörn)
ENDURLÍFGUN (mat á meðvitund og öndun og endurlífgun fullorðinna, barna og smábarna)
KÖFNUN (mat á alvarleika og meðferð fullorðinna, barna og smábarna)
4. vika - MEÐGANGA (eðlilegur vöxtur og þroski fósturs á hverju tímabili, næring og mataræði á meðgöngu)
FÆÐING (undirbúningur, hríðir, vandkvæði og bráðafæðing)

Ég stakk upp á því við þau hjá Project Hope að ég tæki það að mér skrifa bækling sem innihéldi viðfangsefni námskeiðsins, þannig að hægt væri að skilja handhægar upplýsingar eftir í þorpunum eftir að námskeiðinu líkur, auk þess sem að við myndum afhenta konunum viðurkenningarskjal fyrir að hafa setið námskeiðið. Því var tekið mjög vel og nú er ég komin á fullt að skrifa upplýsingabækling sem ég fæ svo einn af palestínsku sjálboðaliðunum til þess að yfirfæra á arabísku.
Ég hef sett mér það markmið að vera búin með fræðilega hlutann fyrir næsta mánudag þannig að ég geti komið því í hendur þýðanda. Þegar hann er svo búinn að koma þessu yfir á arabísku þurfum við að fara með leiðbeiningarnar til prentara sem sér um að láta þetta líta vel út. En það kostar peninga að prenta út bæklingana og okkur langar helst að prenta hann út í 500-1000 eintökum svo að þeir dugi eitthvað. Mér skilst samt að það sé ekkert sérlega dýrt að prenta og binda svona bækling hér þannig að það ætti ekki að vera vandamál að afla peninga til þess.
Svo vantar mig túlka. Reyndar ætlaði Mohammed að vera einhver skipti með mér en það þykir víst ekki við hæfi hérna að hann túlki meðgöngu og fæðingar hlutann þannig að mig vantar kvenkyns túlk.

Þetta reddast...

Sunday, June 8, 2008

Yanoun, Yanoun



Við strákarnir skelltum okkur til Ramallah á fimmtudaginn. Við höfðum hugsað okkur að fara svo til Hebron á föstudeginum. Við komum til Ramallah um miðjan dag og röltum aðeins um bæinn eftir að við tékkuðum okkur inn á hótel sem Majdi sagði okkur frá. Um kvöldið settumst við svo út í garð hótelsins, spiluðum og drukkum bjór. Majdi kom svo um níu og við fórum á skemmtistað sem var mjög svipaður því sem gengur og gerist á Íslandi, fyrir utan það að hann var á þriðju eða fjórðu hæð í stóru húsi. Það var rosalega gaman hjá okkur þangað og ágætt að fá smá pásu frá alvarleika daglega lífsins hér í Nablus.
Við ákváðum þá um kvöldið að við skildum frekar fara að Dauða hafinu á föstudeginum heldur en til Hebron vegna þess að okkur vantaði einhvern innfæddan með okkur. Ástandið í Hebron er einstakt og stranlega mælt gegn því að maður fari þangað "eftirlitslaust".



Frændi Yousefs reddaði okkur algerlega og sótti okkur til Ramallah og fór með okkur að Dauða hafinu. Með honum voru svo tvær franskar stelpur, þannig í heildina vorum við sjö sem fórum. Það var ágætis ferð svo sem en hitinn var skelfilegur og allt of söltuð og sveitt stemmning.
Á laugardeginum gat ég svo sofið út í fyrsta skiptið síðan ég kom hingað til Nablus, mér fannst eins og ég væri að gera eitthvað rangt með því að sofa til hálf 11. Eftir hádegið fórum við Jenny svo á kaffihús og ræddum tilhögun á skyndihjálparnáskeiðunum og skipulögðum hvernig ég tæki við námskeiðinu og kennslunni næstu daga því hún fer á miðvikudaginn.



Í dag er sunnudagur sem mér finnst frekar skrítið þar sem það er virkur dagur hjá Palestínumönnum. Við lögðum af stað snemma í morgun til lítils þorps rétt fyrir utan Nablus sem heitir Yanoun. Þorpið er algerlega umkringt ólöglegum landnemabyggðum og verða þorpsbúar fyrir stöðugu áreiti frá landnemum. Í október 2002 tókst landnemum svo að hræða alla íbúa þorpsins í burtu en þeim tókst, með aðstoð alþjóðlegra sjálfboðaliða, að snúa til baka til þorpsins. Tilvera þorpsins síðan þá hefur byggst á stöðugri viðveru alþjóðlegra sjálfboðaliða alla daga allan ársins hring. Við töluðum við norska stelpu sem hefur verið einn af þessum sjálfboðaliðum síðustu vikur og sagði okkur frá því að síðast í gær komu landnemarnir inn í þorpið. Um var að ræða krakka á aldrinum 3-16 ára og þeir elstu voru með hríðskotabyssur á sér. Þau komu niður í þorpið (landnemabyggðir eru alltaf byggðar á toppi fjallanna í kringum bæi) að eigin sögn til þess að hundurinn þeirra gæti fengið sér að drekka úr brunni bæjarbúa.



Eftir te í boði alþjóðlegu sjálboðaliðanna, heimalagaða köku þorpskvenna og annan tebolla hófum við að kenna skyndihjálp í félagsmiðstöð bæjarins. Mætingin var dræm enda mikið að gera hjá konum þorpsins á þessum árstíma. Ég var samt bara ánægð með það þar sem í dag var fyrsti dagurinn sem ég kenndi meirihluta námskeiðsins. Hingað til hef ég kennt köfnun og aðeins þreifað á hjartahnoðinu en í þetta skiptið bætti ég við mig hjartahnoði barna og smábarna, meðvitundarleysi og læstri hliðarlegu. Það gekk bara rosalega vel og konurnar voru stórskemmtilegar og áhugasamar. Á morgun bæti ég svo við mig blæðingu, sáraumbúnaði og bruna. Eins og áður sagði fer Jenny á miðvikudaginn sem hefur verið stoð mín og stytta hingað til og þá liggur það á mér að halda úti námskeiðinu og sjá um sjóðinn sem safnast hefur til handa verkefninu.

Skyndihjálparnámskeiðið hefur hingað til verið fjármagnað af peningum sem Jenny hefur safnað í gegnum sína internetsíðu en nú eru þeir peningar að klárast og óljóst með fjármögnun námskeiðsins í sumar. Okkur hjá Project Hope langar að halda áfram skyndihjálparkennslunni og höfum hugsað okkur að kenna það tvisvar í viku í fjórar vikur og kenna þá ítarlegra námsefni í tveimur þorpum, þ.e.a.s mæta vikulega í tvö þorp í fjögur skipti. Í raun er ekki um mikla peninga að ræða til að halda úti námskeiðinu þar sem öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu. Eina sem þarf að borga er ferðirnar til og frá kennslustöðunum og kaup á umbúðum og þess háttar. Þeir sem hafa áhuga á að leggja okkur lið geta gert það með því að greiða gegnum PayPal á heimasíðu Project Hope og taka fram í athugasemd "medical" eða haft samband við mig gegnum e-mail á annato@hi.is til þess að fá frekari upplýsingar um verkefnið.

Þangað til næst
Anna

Thursday, June 5, 2008

Þorpin milli landnemabyggða

Ung hjón frá litlu þorpi áttu von á sínu fyrsta barni. Barnið fæðist fyrir tímann og það er lítið og veikburða. Barnið þarf að komast á spítala og það fljótt. Það er enginn spítali í þorpinu þannig að hjónin þurfa að fara með sjúkrabíl til stórborgarinnar sem er 15 km frá þorpinu. Við útjaðar þorpsins hefur hins vegar verið settur upp vegatálmi og þar situr hópur ungra hermanna sem stjórnar umferð inn og út úr bænum. Sjúkrabílinn er stoppaður við vegatálmann og öllum sem í honum eru skipað að yfirgefa hann og skilja barnið eftir. Tveir hermenn fara inn í sjúkrabílinn og yfirfara hann hátt og lágt á meðan að aðrir tveir hermenn yfirheyra hjónin og sjúkraflutningamanninn. Þau segja hermönnunum að ástandið sé alvarlegt og að hið nýfædda barn verði að komast undir læknishendur undir eins. Þau eru látin bíða á meðan að einn hermannanna fer að athuga skilríki þeirra gegnum talstöð. Það fylgdi ekki sögunni hvað þau biðu nákvæmlega lengi, en þegar hjónunum var leyft að fara aftur inn í sjúkrabílinn var búið að rífa upp úr öllum töskunum þeirra, barnaföt og bleyjur út um allt og barnið hafði yfirgefið dáið.

Þessa sögu heyrði ég frá konu í litlu þorpi þar sem við vorum að kenna skyndihjálp í dag. Þorpið er oft notað til æfingar fyrir Ísraelska herinn, landslagið hentar víst vel til æfinga. Fólkið í bænum er beðið um að halda sig inni á meðan. Vegurinn sem liggur að þorpinu er nýmalbikaður eftir að gamli vegurinn var hernuminn og er hann nú eingöngu ætlaður ísraelskum landnemum.

Ég er farin í helgarfrí, ætla með strákunum til Ramallah og Hebron. Góða helgi.

Tuesday, June 3, 2008

Alfara og Najah



Fórum snemma í gærmorgun til Alfara flóttamannabúðanna rétt fyrir utan Nablus og héldum okkar fyrsta skyndihjálparnámskeið. Með mér voru bresk stúlka sem er sjálfboðaliðasmalari hjá samtökunum, kanadískur strákur sem er stofnandi samtakana og palestínskur læknanemi sem túlkaði fyrir okkur. Námskeiðið átti að byrja 10 en byrjaði svo ekki fyrr en um 12, alveg ekta palestínskt. Breska stelpan sá um að tala, ég lék fórnarlambið og kanadíski strákurinn tók myndir sem hann ætlar að nota til kynningarstarfa á meðan að sá palestínski túlkaði. Konurnar sem voru á námskeiðinu voru á aldrinum 20-70 ára og sýndu mikinn áhuga. Við fórum yfir viðbrögð við blæðingu, hreinsun og frágang sára, hjartahnoð og blástur, köfnun og einkenni hjartaáfalls og heilablðingar/tappa. Í lok tímans byrjuðu konurnar að spyrja okkur alls konar spurninga, eins og um krampa sem frændi einnar fékk og kyngingarerfiðleika einnar. Ég ráðlagði konunni, sem var um 70, að hugleiða að borða maukfæði (M1/M2).



Eftir kennsluna fengum við svo smá kynningu á flóttamannabúðunum og fjórða kaffibollann.
Þegar ég kom svo aftur til Nablus hitti ég Einar og Stefán, sem komu til Nablus snemma um morguninn, Yousef og Majdi. Við settumst niður og borðuðum og löbbuðum svo um gjörvalla Nablus og gömlu borgina.
Klukkan 18 fór ég svo með hinum sjálfboðaliðunum hjá Project Hope til Balata flóttamannabúðanna á ljósmyndasýningu sem haldin var í tilefni að því að ljósmyndanámskeiði var að ljúka sem samtökin stóðu fyrir. Strax að henni lokinni fórum við niðrá skrifstofa vikulega-sameiginlega-sjálboðaliða-kvöldmatinn. Þar mæta sem sagt allir sjálfboðaliðarnir, alþjóðlegu og innfæddu, og snæða saman kvöldverð sem allir leggja til eitthvað. Ég tók smá Kanafeh en þá kom einhver annar með risastóran bakka af Kanafah þannig að mitt framlag varð að engu. Kvöldið var stórskemmtilegt, maturinn góður og fólkið fjölbreytt. Ég var svo komin heim í háttinn um miðnætti og steinsofnaði.



Í morgun fór ég svo á fund með forseta hjúkrunarfræðideildar við Najah háskólann hér í Nablus. Háskólabyggingin þar sem hjúkrunar- og læknadeildin er nýbyggð og risarisa stór, fjármögnuð af emírum Saudi Arabiu og öðrum arabískum auðmönnum. Ég fór með yfirmanni frá samtökunum og hélt að ég væri boðin með meira til skrauts vegna þess að ég er hjúkrunarfræði. Hélt kannski að samtökin væru að reyna að koma á samböndum við háskólann uppá framtíðina. Forsetinn beindi hins vegar allri sinni athygli að mér og fundurinn snérist um mig frá upphafi til enda. Hún sýndi mér alla deildina og verknámsstofurnar og ég fékk rosalega minnimáttarkennd og var stöðugt hugsað til verknámsstofunnar í Eirbergi, með sýnar 80 ára gömlu rúm. Svo bauð hún mér að koma og kenna æða- og þvagleggsísetningar, umhirðu miðlægra bláæðaleggja og þar fram eftir götunum í verknámsstofunni í sumarskólanum sem byrjar 8. júní. Hún stakk líka upp á því að koma á samstarfi milli Najah háskólans og Háskóla Íslands og ég lofaði því að athuga það og setja mig í samband við skólann heima. Mér líst bara vel á að vera hluti af því. Við sjáum svo til hvað mín samtök segja um það að ég taki að mér verkefni í háskólanum. En ég mun alla vega kenna skyndihjálparnámskeiðin næstu daga og smám saman taka við þeim að mér skilst. Annars er ekkert borðleggjandi með langtímafyrirkomulag. Samtökin eru að tala um að ég kenni framhaldsnámskeið í ensku og þá yrði ég að kenna fólki á mínum aldri og eldri. Ég er frekar feimin við það en Abe er að reyna að peppa mig upp.
Restina af deginum eyddi ég svo með íslensku strákunum, spiluðum pakk á hótelinu hjá þeim, fórum út og fengum okkur kvölmat og fengum okkur svo te og nargilu á kaffihúsi. Annar góður dagur hér í Nablus.

Sunday, June 1, 2008

Nablus

Þá er ég komin til borgarinnar milli fjallanna, borgarinnar sem sefur á nóttunni ef hún fær svefnfrið (sjaldgæft), þar sem lífið gengur sinn vanagang þrátt fyrir erfitt og óréttlátt hernám, miðstöðvar verslunnar og menningar á Vesturbakkanum, þar sem börnin kalla "what's your name?" og "how are you?", sem er þekkt fyrir sápaframleiðslu og besta kanafeh í Palestínu, þar sem leigubílar eru nánast einu bílarnir, þar sem sólsetrið er himneskt og þar sem ég verð næstu þrjá mánuði. Ég er komin til Nablus! Hún er miklu fallegri og stærri en mig minnti og ég er ákaflega ánægð að vera komin hingað.

Alveg hreint ótrúlegt að sjá hversu mikil uppbygging er á svæðinu miðað við hernámið og efnahagsástandið, en það er kannski ekki að marka það hjá mér enda nýkomin frá A-Jerúsalem, þar sem fólk má ekki einu sinni skipta um rúðu á húsinu sínu ef hún brotnar, þar sem engin uppbygging hefur átt sér stað síðan 1967. Hér hafa Palestínumenn völdin og það sést vel.



Ég hitti fólkið hjá Project Hope í gær á skrifstofu þeirra hér í Nablus og mér líst alveg ákaflega vel á hópinn sem ég verð með hér í sumar. Samtökin eru með tvær íbúðir undir sjálfboðaliðana og mér skilst að ég hafa lent í betri íbúðinni. Alla vega er íbúðin mín alveg svakalega flott, þráðlaust internet, sjónvarp, rosalega flott eldhús og útsýni yfir ALLA Nablus. Það verða einhverjar sviptingar á þeim sjálfboðaliðum sem munu deila með mér íbúð en með mér alla þrjá mánuðin verður sjötugur maður palestínskur Ameríkani sem heitir Ibrahim eða Abe. Hann er alveg óskaplega skemmtilegur karakter. Hann minnir mig alltaf á Tony Montana úr Scarface, alltaf með feitan vindil í kjaftinum og talar með hreim sem líkist Montana. Hann kennir byrjendakúrsa í ensku.



Í dag var svo fyrsti dagurinn minn í aðlögun hjá samtökunum. Ég byrjaði að því að hitta nýráðinn sjálboðaliðastjóra sem fór með mér yfir reglur og aðra þætti sem er gagnlegt að vita þegar maður er á menningarsvæði sem þessu. Hann fór með mér í smá kynnisferð um Nablus og gömlu borgin og ég hélt að ég myndi deyja úr hita. Svo fór ég aftur á skrifstofuna á smá fund um skyndihjálparnámskeiðin sem ég mun taka þátt í og fór ásamt tveim öðrum sjálfboðaliðum til Askar flóttamannabúðanna og fékka að fylgjast með enskukennslu hjá 6 og 7 ára krökkum. Í lok dagsins fylgdist ég með enskutíma hjá Abe þar sem hann var að kenna fullorðnu fólki ensku á arabísku. Eftir kennsluna pöntuðum við Abe okkur fisk og hittum svo Yousef niðrí bæ og fengum okkur kanafeh.

Nú er ég komin heim í íbúðina og hlakka til morgundagsins en þá fer ég ásamt stjórnendum Project Hope til Alfara flóttamannabúðanna fyrir utan Nablus þar sem við munum kenna fyrsta skyndihjálparnámskeiðið og vinna að kynningarmálum til fjáröflunar fyrir verkefnið í sumar. Eftir námskeiðið ætlum við jafnvel að flakka aðeins um landið milli Nablus og Jenin, sem mér skilst að sé laust við öll check-point eins og er. Annað kvöld hittast svo allir sjálboðaliðarnir, innfæddu og alþjóðlega og borða saman kvöldmat.

Bless í bili
Anna