Tuesday, June 3, 2008
Alfara og Najah
Fórum snemma í gærmorgun til Alfara flóttamannabúðanna rétt fyrir utan Nablus og héldum okkar fyrsta skyndihjálparnámskeið. Með mér voru bresk stúlka sem er sjálfboðaliðasmalari hjá samtökunum, kanadískur strákur sem er stofnandi samtakana og palestínskur læknanemi sem túlkaði fyrir okkur. Námskeiðið átti að byrja 10 en byrjaði svo ekki fyrr en um 12, alveg ekta palestínskt. Breska stelpan sá um að tala, ég lék fórnarlambið og kanadíski strákurinn tók myndir sem hann ætlar að nota til kynningarstarfa á meðan að sá palestínski túlkaði. Konurnar sem voru á námskeiðinu voru á aldrinum 20-70 ára og sýndu mikinn áhuga. Við fórum yfir viðbrögð við blæðingu, hreinsun og frágang sára, hjartahnoð og blástur, köfnun og einkenni hjartaáfalls og heilablðingar/tappa. Í lok tímans byrjuðu konurnar að spyrja okkur alls konar spurninga, eins og um krampa sem frændi einnar fékk og kyngingarerfiðleika einnar. Ég ráðlagði konunni, sem var um 70, að hugleiða að borða maukfæði (M1/M2).
Eftir kennsluna fengum við svo smá kynningu á flóttamannabúðunum og fjórða kaffibollann.
Þegar ég kom svo aftur til Nablus hitti ég Einar og Stefán, sem komu til Nablus snemma um morguninn, Yousef og Majdi. Við settumst niður og borðuðum og löbbuðum svo um gjörvalla Nablus og gömlu borgina.
Klukkan 18 fór ég svo með hinum sjálfboðaliðunum hjá Project Hope til Balata flóttamannabúðanna á ljósmyndasýningu sem haldin var í tilefni að því að ljósmyndanámskeiði var að ljúka sem samtökin stóðu fyrir. Strax að henni lokinni fórum við niðrá skrifstofa vikulega-sameiginlega-sjálboðaliða-kvöldmatinn. Þar mæta sem sagt allir sjálfboðaliðarnir, alþjóðlegu og innfæddu, og snæða saman kvöldverð sem allir leggja til eitthvað. Ég tók smá Kanafeh en þá kom einhver annar með risastóran bakka af Kanafah þannig að mitt framlag varð að engu. Kvöldið var stórskemmtilegt, maturinn góður og fólkið fjölbreytt. Ég var svo komin heim í háttinn um miðnætti og steinsofnaði.
Í morgun fór ég svo á fund með forseta hjúkrunarfræðideildar við Najah háskólann hér í Nablus. Háskólabyggingin þar sem hjúkrunar- og læknadeildin er nýbyggð og risarisa stór, fjármögnuð af emírum Saudi Arabiu og öðrum arabískum auðmönnum. Ég fór með yfirmanni frá samtökunum og hélt að ég væri boðin með meira til skrauts vegna þess að ég er hjúkrunarfræði. Hélt kannski að samtökin væru að reyna að koma á samböndum við háskólann uppá framtíðina. Forsetinn beindi hins vegar allri sinni athygli að mér og fundurinn snérist um mig frá upphafi til enda. Hún sýndi mér alla deildina og verknámsstofurnar og ég fékk rosalega minnimáttarkennd og var stöðugt hugsað til verknámsstofunnar í Eirbergi, með sýnar 80 ára gömlu rúm. Svo bauð hún mér að koma og kenna æða- og þvagleggsísetningar, umhirðu miðlægra bláæðaleggja og þar fram eftir götunum í verknámsstofunni í sumarskólanum sem byrjar 8. júní. Hún stakk líka upp á því að koma á samstarfi milli Najah háskólans og Háskóla Íslands og ég lofaði því að athuga það og setja mig í samband við skólann heima. Mér líst bara vel á að vera hluti af því. Við sjáum svo til hvað mín samtök segja um það að ég taki að mér verkefni í háskólanum. En ég mun alla vega kenna skyndihjálparnámskeiðin næstu daga og smám saman taka við þeim að mér skilst. Annars er ekkert borðleggjandi með langtímafyrirkomulag. Samtökin eru að tala um að ég kenni framhaldsnámskeið í ensku og þá yrði ég að kenna fólki á mínum aldri og eldri. Ég er frekar feimin við það en Abe er að reyna að peppa mig upp.
Restina af deginum eyddi ég svo með íslensku strákunum, spiluðum pakk á hótelinu hjá þeim, fórum út og fengum okkur kvölmat og fengum okkur svo te og nargilu á kaffihúsi. Annar góður dagur hér í Nablus.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Hæ hæ.
Mikið er ég stolt af þér Anna mín. Gaman að fylgjast með þér. Allt virðist ganga eins og í sögu og ánægð er ég með það.
Farðu áfram varlega love. Sakna þín hérna heima.
Kveðja,
Björg
hehehehhehe
vóó
geðbilað að hafa heilan fund um sig ;) hehe
þú hefur ekki sagt þeim frá aðstöðunni á íslandi? væri smart move að senda ísl nema í verknámsstofuæfingar til nablus..
en geggjað að fá að kenna venflowuppsetningar í HÁskóla, það er nú aldeilis e-ð á cv-ið
Post a Comment