Sunday, June 1, 2008

Nablus

Þá er ég komin til borgarinnar milli fjallanna, borgarinnar sem sefur á nóttunni ef hún fær svefnfrið (sjaldgæft), þar sem lífið gengur sinn vanagang þrátt fyrir erfitt og óréttlátt hernám, miðstöðvar verslunnar og menningar á Vesturbakkanum, þar sem börnin kalla "what's your name?" og "how are you?", sem er þekkt fyrir sápaframleiðslu og besta kanafeh í Palestínu, þar sem leigubílar eru nánast einu bílarnir, þar sem sólsetrið er himneskt og þar sem ég verð næstu þrjá mánuði. Ég er komin til Nablus! Hún er miklu fallegri og stærri en mig minnti og ég er ákaflega ánægð að vera komin hingað.

Alveg hreint ótrúlegt að sjá hversu mikil uppbygging er á svæðinu miðað við hernámið og efnahagsástandið, en það er kannski ekki að marka það hjá mér enda nýkomin frá A-Jerúsalem, þar sem fólk má ekki einu sinni skipta um rúðu á húsinu sínu ef hún brotnar, þar sem engin uppbygging hefur átt sér stað síðan 1967. Hér hafa Palestínumenn völdin og það sést vel.



Ég hitti fólkið hjá Project Hope í gær á skrifstofu þeirra hér í Nablus og mér líst alveg ákaflega vel á hópinn sem ég verð með hér í sumar. Samtökin eru með tvær íbúðir undir sjálfboðaliðana og mér skilst að ég hafa lent í betri íbúðinni. Alla vega er íbúðin mín alveg svakalega flott, þráðlaust internet, sjónvarp, rosalega flott eldhús og útsýni yfir ALLA Nablus. Það verða einhverjar sviptingar á þeim sjálfboðaliðum sem munu deila með mér íbúð en með mér alla þrjá mánuðin verður sjötugur maður palestínskur Ameríkani sem heitir Ibrahim eða Abe. Hann er alveg óskaplega skemmtilegur karakter. Hann minnir mig alltaf á Tony Montana úr Scarface, alltaf með feitan vindil í kjaftinum og talar með hreim sem líkist Montana. Hann kennir byrjendakúrsa í ensku.



Í dag var svo fyrsti dagurinn minn í aðlögun hjá samtökunum. Ég byrjaði að því að hitta nýráðinn sjálboðaliðastjóra sem fór með mér yfir reglur og aðra þætti sem er gagnlegt að vita þegar maður er á menningarsvæði sem þessu. Hann fór með mér í smá kynnisferð um Nablus og gömlu borgin og ég hélt að ég myndi deyja úr hita. Svo fór ég aftur á skrifstofuna á smá fund um skyndihjálparnámskeiðin sem ég mun taka þátt í og fór ásamt tveim öðrum sjálfboðaliðum til Askar flóttamannabúðanna og fékka að fylgjast með enskukennslu hjá 6 og 7 ára krökkum. Í lok dagsins fylgdist ég með enskutíma hjá Abe þar sem hann var að kenna fullorðnu fólki ensku á arabísku. Eftir kennsluna pöntuðum við Abe okkur fisk og hittum svo Yousef niðrí bæ og fengum okkur kanafeh.

Nú er ég komin heim í íbúðina og hlakka til morgundagsins en þá fer ég ásamt stjórnendum Project Hope til Alfara flóttamannabúðanna fyrir utan Nablus þar sem við munum kenna fyrsta skyndihjálparnámskeiðið og vinna að kynningarmálum til fjáröflunar fyrir verkefnið í sumar. Eftir námskeiðið ætlum við jafnvel að flakka aðeins um landið milli Nablus og Jenin, sem mér skilst að sé laust við öll check-point eins og er. Annað kvöld hittast svo allir sjálboðaliðarnir, innfæddu og alþjóðlega og borða saman kvöldmat.

Bless í bili
Anna

1 comment:

krummaloa said...

úúú, betri íbúðin, auðvitað,þetta er líka allt að fara eins og það átti að fara, er það ekki:) djö ertu heppin með útsýni og svo er ég alveg að sjá þenna gæja Abe fyrir mér, hehe, tony, hehe. umm ég væri sko til í að sitja þarna á svölunum með þér núna á leið að kenna skyndihjálp á morgun, jí þú ert svo að nýta og njóta lífsins kona, sakna þín og er mega stollt af þér!!!
bestu kveðjur frá hrafnhildi

p.s. ég er ekki ennþá búin með boðskortin - ég er algjör rolla - ef þú værir að gifta þig þá væri ég með ótal hugmyndir en af því þetta er ég þá er ég bara græn - en mér er líka bara alveg sama hvernig þau líta út - það er kannski bara málið - ég held ég þurfi á því að halda að þú fáir þér SKYPE og segir mér hvaða email þú ætlar að nota til þess - þá get eg séð íbúðina þína líka - svo cool:)