Sunday, June 8, 2008
Yanoun, Yanoun
Við strákarnir skelltum okkur til Ramallah á fimmtudaginn. Við höfðum hugsað okkur að fara svo til Hebron á föstudeginum. Við komum til Ramallah um miðjan dag og röltum aðeins um bæinn eftir að við tékkuðum okkur inn á hótel sem Majdi sagði okkur frá. Um kvöldið settumst við svo út í garð hótelsins, spiluðum og drukkum bjór. Majdi kom svo um níu og við fórum á skemmtistað sem var mjög svipaður því sem gengur og gerist á Íslandi, fyrir utan það að hann var á þriðju eða fjórðu hæð í stóru húsi. Það var rosalega gaman hjá okkur þangað og ágætt að fá smá pásu frá alvarleika daglega lífsins hér í Nablus.
Við ákváðum þá um kvöldið að við skildum frekar fara að Dauða hafinu á föstudeginum heldur en til Hebron vegna þess að okkur vantaði einhvern innfæddan með okkur. Ástandið í Hebron er einstakt og stranlega mælt gegn því að maður fari þangað "eftirlitslaust".
Frændi Yousefs reddaði okkur algerlega og sótti okkur til Ramallah og fór með okkur að Dauða hafinu. Með honum voru svo tvær franskar stelpur, þannig í heildina vorum við sjö sem fórum. Það var ágætis ferð svo sem en hitinn var skelfilegur og allt of söltuð og sveitt stemmning.
Á laugardeginum gat ég svo sofið út í fyrsta skiptið síðan ég kom hingað til Nablus, mér fannst eins og ég væri að gera eitthvað rangt með því að sofa til hálf 11. Eftir hádegið fórum við Jenny svo á kaffihús og ræddum tilhögun á skyndihjálparnáskeiðunum og skipulögðum hvernig ég tæki við námskeiðinu og kennslunni næstu daga því hún fer á miðvikudaginn.
Í dag er sunnudagur sem mér finnst frekar skrítið þar sem það er virkur dagur hjá Palestínumönnum. Við lögðum af stað snemma í morgun til lítils þorps rétt fyrir utan Nablus sem heitir Yanoun. Þorpið er algerlega umkringt ólöglegum landnemabyggðum og verða þorpsbúar fyrir stöðugu áreiti frá landnemum. Í október 2002 tókst landnemum svo að hræða alla íbúa þorpsins í burtu en þeim tókst, með aðstoð alþjóðlegra sjálfboðaliða, að snúa til baka til þorpsins. Tilvera þorpsins síðan þá hefur byggst á stöðugri viðveru alþjóðlegra sjálfboðaliða alla daga allan ársins hring. Við töluðum við norska stelpu sem hefur verið einn af þessum sjálfboðaliðum síðustu vikur og sagði okkur frá því að síðast í gær komu landnemarnir inn í þorpið. Um var að ræða krakka á aldrinum 3-16 ára og þeir elstu voru með hríðskotabyssur á sér. Þau komu niður í þorpið (landnemabyggðir eru alltaf byggðar á toppi fjallanna í kringum bæi) að eigin sögn til þess að hundurinn þeirra gæti fengið sér að drekka úr brunni bæjarbúa.
Eftir te í boði alþjóðlegu sjálboðaliðanna, heimalagaða köku þorpskvenna og annan tebolla hófum við að kenna skyndihjálp í félagsmiðstöð bæjarins. Mætingin var dræm enda mikið að gera hjá konum þorpsins á þessum árstíma. Ég var samt bara ánægð með það þar sem í dag var fyrsti dagurinn sem ég kenndi meirihluta námskeiðsins. Hingað til hef ég kennt köfnun og aðeins þreifað á hjartahnoðinu en í þetta skiptið bætti ég við mig hjartahnoði barna og smábarna, meðvitundarleysi og læstri hliðarlegu. Það gekk bara rosalega vel og konurnar voru stórskemmtilegar og áhugasamar. Á morgun bæti ég svo við mig blæðingu, sáraumbúnaði og bruna. Eins og áður sagði fer Jenny á miðvikudaginn sem hefur verið stoð mín og stytta hingað til og þá liggur það á mér að halda úti námskeiðinu og sjá um sjóðinn sem safnast hefur til handa verkefninu.
Skyndihjálparnámskeiðið hefur hingað til verið fjármagnað af peningum sem Jenny hefur safnað í gegnum sína internetsíðu en nú eru þeir peningar að klárast og óljóst með fjármögnun námskeiðsins í sumar. Okkur hjá Project Hope langar að halda áfram skyndihjálparkennslunni og höfum hugsað okkur að kenna það tvisvar í viku í fjórar vikur og kenna þá ítarlegra námsefni í tveimur þorpum, þ.e.a.s mæta vikulega í tvö þorp í fjögur skipti. Í raun er ekki um mikla peninga að ræða til að halda úti námskeiðinu þar sem öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu. Eina sem þarf að borga er ferðirnar til og frá kennslustöðunum og kaup á umbúðum og þess háttar. Þeir sem hafa áhuga á að leggja okkur lið geta gert það með því að greiða gegnum PayPal á heimasíðu Project Hope og taka fram í athugasemd "medical" eða haft samband við mig gegnum e-mail á annato@hi.is til þess að fá frekari upplýsingar um verkefnið.
Þangað til næst
Anna
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
talandi um að vera heil og fagmannleg - þú ert alveg að meika þetta - endar á að stýra þessu innan skamms - er það ekki líka planið:) Verðum að heyramst bráðum aftur, hrafnhildur tók heimlich á sjúkingi um helgina - frekar fyndin frásögn - ég hlæ ennþá innan með mér - svo dreymdi mig að ég hefði ekki fylgst nógu vel með monitornum og sj stökk íl atrial fib og var komin í ventric fib og ég sá einhvern stökkva á hann og hnoða hann - ég vaknaði í svitabaði með 240 í púls) hehehehehehehee - ég held ég sé að missa vitið og algjörlega farin að taka allt of marga sjúklinga
-gott að þú ert heil og allt gengur upp - lýst alveg hrikalega vel á ferðina með stkrákunum þar sem hún fól í sér skemmtistaðarferð;)
já það er bara hittingur á skypinu sem fyrst. ég er oftast inni á kvöldin frá svona 7 til 10, en stundum dettur netið út hjá mér fyrirvaralaust.
ég held að við séum nú bara fæddar í þetta þannig að við skulum hætta að blekkja okkur:)
heyri í þér fljótlega
Post a Comment