Friday, August 1, 2008

The Allenby experience

Jórdaná

Á föstu- dagsmorgun tókum við Gunnar, Domi, Rozina og Ciara rútu frá Jerúsalem að King Hussein/Allenby brúnni, sem er landamærastöð milli Ísraels og Jórdaníu. Það var nú frekar fyndið að keyra yfir brúna sem markar skilin milli landanna og sjá Jórdaná, á sem maður heyrir mikið nefnda, en er ekki breiðari en 2 metrar. Stórauðugur jódanskur vinur Rozinu hafði boðist til þess að sækja mig, Rozinu og Ciaru þegar við kæmum til Amman, gista á heimili hans og fara með okkur til Petru og að Dauða hafinu. Svo bættust Domi og Gunnar við og þá var ég svolítið á milli steins og sleggju vegna þess að ríki strákurinn var ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að hýsa 38 ára franskan anarkista frá Absúrdistan (að eigin sögn). Ég ákvað því að vera bara með strákunum, við myndum gista hjá Wahbi bróður Abe’s, leigja okkur bílaleigubíl í Amman á laugardagsmorgninum, keyra til Petru og eyða deginum þar með hinum krökkunum og halda svo enn sunnar og jafnvel fara til Wadi Ram, gista þar fram á sunnudag og fara þaðan til Aqaba. Planið stóðst hins vegar ekki.

Amman

Það tók all nokkurn tíma að komast yfir til Jórdaníu, fyrst gegnum ísraelska hluta landamæranna og svo jórdanska. Þegar við komum til Amman sótti ríki strákurinn okkur öll og keyði mig og strákana að hitta Wahbi. Seinni part dagsins keyði hann svo okkur niður í “gömlu” borgina, við borðuðum írakskan mat (sem var furðulegt nokk eins og íslensk kjötsúpa), skoðuðum okkur um og löbbuðum um alla Amman fram á nótt.

Bílinn okkar

Við vöknuðum spræk kl. 8 á laugardagsmorgun til þess að geta drifið okkur af stað til Petru. En það var nú hægara sagt en gert því það reyndist ómögulegt að fá bílaleigjubíl. Við þræddum allar leigur og það endaði með því að okkur var lofað bíl klukkan 14. Á meðan við biðum eftir bílnum fórum við að Amman háskóla og slæpuðumst þar um þangað til kl. 14. Þegar við komum svo aftur niður á bílaleigu sagði kallinn að bílinn kæmi ekki fyrr en kl. 17. Hann lofaði að þá myndi hann vera tilbúinn, annars skyldum við fá hans bíl að láni. Við tókum taxa niður í “gömlu” borg, fengum okkur kafta og röltum um. Við vorum orðin ansi efins um að við fengjum bíl yfir höfuð, en viti menn, þegar við komum kl. 17 þá beið okkar ansi vel útlítandi bíll.

Domi á hraðbrautinni

Loksins vorum við lögð af stað og að sjálfsögðu keyrði ég. En bílinn var nánast bensínlaus og við höfðum lagt allan peninginn okkar til tryggingar á bílnum. Við fundum sem betur fer bensínstöð áður en við komum út ú Amman og rétt náðum að safna saman síðustu aurunum til þess að fylla tankinn. Þá var að redda peningum. Við höfðum ekki hugmynd um hvar hraðbanka væri að finna og við ókum eftir stórri hraðbraut. Maðurinn á bílaleigunni hafði sagt okkur að fylgja vegamerkingum að flugvellinum þannig að við ákváðum að koma við á flugvellinum og taka út pening. Auðvitað var þvílík öryggisgæsla þar og hermönnunum fannst frekar hlægilegt þegar við sögðum þeim að við værum komin þangað til að taka út pening. En það gekk og þá gátum við keyrt af stað áhyggjulaus í átt að Petru.

Vatn lak úr vélinni

Þegar við vorum komin um 100 km frá Amman var farið að dimma og við ákváðum að stoppa og njóta sólsetursins í eyðimörkinni. Þá spyr Gunnar allt í einu hvort einhver hafi hellt vatni á götuna. Við litum undir bílinn og þá lak helvítis bílinn. Gat verið. Ég hringdi í bílaleigukallinn og lýsti aðstæðunum. Hann hló og sagði að þetta væri nú bara vatn frá miðstöðinni.
Við komum til Wadi Musa, sem er túristabær við hliðina á Petru, um kl. 22 á laugardagskvöldið eða um 11 klst. eftir áætlun. Þar fundum við hótel sem mælt var með í túristabókinni hans Gunna og bókuðum herbergi. Snemma morguninn eftir keyrðum við svo til Petru, borguðum morðfjár inn á svæðið, 21 dinara eða rúmar 2500 kr.

Sami lagaði te fyrir okkur við lækinn

Petra var auðvitað undursamleg og stóð undir væntingum hvað varðar mikilfengleika hennar. Leiðin um Petru er ansi löng og tekur nokkra klukkutíma að ganga upp á topp. Betúínastrákar bjóða túristum að ríða ösnum sínum upp brattar hliðar Petru og taka smáaura fyrir. Ég sló til og settist á bak og strákarnir sömuleiðis. Betúínastrákarnir fóru með okkur út fyrir venjulega leið að læk sem rennur í dal aðeins neðan við Petru. Við settumst þar niður í laut, kveiktum bál, sóttum vatn í lækinn og hitum okkur te.

Ég og múlasninn Monika

Eftir góða afslöppum í þessari sannkölluðu paradís buðu betúíastrákarnir okkur að koma með sér upp á topp Petru þar sem vinir þeirra væru með tjald efst á fjallinu með útsýni yfir Wadi Araba og alla leið til Palestínu. Við slóum til. Það var svo ofboðslega friðsælt og fallegt þarna að við enduðum á því að eyða þar nóttinni og öllum mánudeginum. Þar kynntumst við fjótum betúínum sem eyða meirihluta daga sinna í tjaldinu á toppi veraldar, þeim Mohammed, Fawas, Sameh og Abet. Abet spilaði á út gítar, Mohammed trommar og Fawas spilar á flautu. Við sungum, fórum í vatnsleiðangra á ösnunum og múlösnunum, lágum og störðum á milljón stjörnur, löbbuðum um, hjálpuðumst að við að elda mat yfir báli og drukkum óhóflega mikið magn af tei. Á mánudeginum höfðum við hugsað okkur að leggja af stað snemma um morgunninn aftur til Amman, enda áttum við að skila bíluleigubílnum kl. 17, en Mohammed hringdi fyrir mig í kallinn og tilkynnti honum að okkur myndi seinka.

Betúínastrákarnir Fawas og Abet

Til þess að við þyrftum ekki að greiða fyrir auka dag í Petru buðu Fawas og Mohammed okkur að ríða með sér í Betúínaþopið sitt þaðan sem hægt var að komast aðra leið út. Við lögðum af stað um fimm leitið ríðandi til þorpsins. Leiðin var löng og hlykkjótt, upp og niður fjallshliðarnar, en svo draumi líkust að mig langaði eiginlega ekkert að fara. Þegar við komum til þorpsins var að sjálfsögðu boðið upp á te og Fawas fór í Betúína fötin sín, en hann hafði áður verið klæddur eins og dauðarokkstjarna. Frá þorpinu tókum við svo leigubíl niður til Petru, sóttum bílinn okkar og keyrðum með strákunum heim til Mohammeds. Þar gátum við öll farið í sturtu til skiptis og sátum þess á milli í hring á gólfinu, hlustuðum á tónlist og klöppuðum saman lófum.

Tjaldið þar sem við eyddum tveim dögum og einni nótt

Klukkan var rúmlega 23 þegar við lögðum loks af stað til Amman en það var ótrúlega erfitt að koma sér af stað enda mjög freistandi að verða bara eftir og gleymast. Við uppgötvuðum fljótlega að við höfðum tapað lyklunum af íbúðinni í Amman og hringdum því í Wahbi sem sagði okkur að þetta væri eini lykillinn að íbúðinni og það væri lítið sem hann gæti gert enda að nálgast miðnætti. Við keyrðum samt sem áður áfram í átt að Amman, Gunnar rotaður aftur í og við frakkinn að halda hvort öðru vakandi við aksturinn. Um 3 leiðið komum við svo til Amman og sváfum í bílnum fyrir utan íbúðina. Ég held ég hafi sofið í svona 2 tíma.

Útsýni frá tjaldinu okkar

Á þriðjudagsmorgun vaknaði ég klukkan 7 og ýtti við strákunum. Leigubílstjóri sem við könnuðumst við keyrði framhjá bílnum okkar fyrir tilviljun og spurði okkur hvað í ósköpunum við værum að gera. Við útskýrðum sólarsöguna og hann hringdi í aðstoðamann Wahbi sem kom út úr íbúðinni okkar með aukalykil sem var svo eftir allt saman til. Við sóttum dótið okkar í íbúðina, skiluðum bílnum og brunuðum út að landamærunum því ég átti að kenna ensku kl. 15 og 16:30.



Ég var svo langþreytt og útkeyrð þegar við komum að brúnni að mig svimaði. Það var ekkert vesan á jórdanska hluta brúnnar en aðra sögu er að segja af ísraelska hlutanum. Þegar við komum að byggingunni þar sem landamæraeftirlit fer fram voru um 300 Palestínumenn í röð að bíða eftir að ganga í gegnum málmleitartæki o.s.frv. Allt í góðu með það. Það er eðlilegt. En allt í einu tóku hermennirnir upp á því að reka alla út úr byggingunni og skipuðu þeim að standa á grasfleti í um 20 metra fjarlægð frá byggingunni. Þar stóðum við svo ásamt 300 Palestínumönnum í steikjandi hita, beint undir sólinni í um 15 mínútur. Á meðan stóðu hermennirnir í skugga, beint á móti okkur, upp við bygginguna, talandi saman um guð veit hvað, hlægjandi og brosandi. Algerlega tilgangslaus aðgerð. Það rann á mig smá reiði við að verða vitni að þessu, en ég gerði mér hins vegar ekki grein fyrir því þá að þetta var aðeins upphafið að 10 klst. veru minni í þessari blessuðu byggingu.

Þegar við fengum svo að fara aftur inn hélt eftirlitið áfram. Þá sé að að maður kemur inn í bygginguna og hann ýtir á undan sér hjólastól með elstu konu sem ég hef í lífinu séð. Hún hélt ekki einu sinni höfði. Fólkið sem stóð í röðinni hleypti þeim fremst og þegar þau nálguðust málmleitartækið skipar ungur hermaður konunni að standa upp úr stólnum og ganga í gegnum málmleitartækið. Konan gat það að sjálfsögðu ekki þannig að þrír menn héldu konunni á fótum og gengu með henni gegnum tækið. Það pípti. Hermaðurinn skipar konunni að fara til baka og ganga aftur í gegn. Mér sýndist konan vera búin að missa meðvitund. Ekki nóg með það heldur skipaði hermaðurinn henni að fara úr skónum og láta þá gegnum röntgentækið. Hún var að sjálfsögðu ekki fær um það sjálf þannig að fjórði maðurinn þurfti að taka hana úr skónum og fjarlægði í leiðinni lykil úr vasa konunnar sem hafði valdið því að tækið pípti. Rúmlega mínútu seinna, þegar hermaðurinn var tilbúinn benti hann þeim að labba aftur í gegn. Ekkert píp og konan var lögð aftur niður í hjólastólinn, klædd í skóna og henni rúllað í næstu röð. Ég sá þessa konu ekki meir.

Á meðan að ég beið í næstu röð, sem var vegabréfsáritunarröðin, var ég orðið enn þreyttari og enn pirraðri. Salurinn var fullur af Palestínumönnum, bæði búsettnum í Palestínu og öðrum löndum og þau voru öll að bíða eftir því að vera yfirheyrð. Hvað ertu að fara að gera, hverja þekkiru, hvað er númerið þeirra, hvað heitir amma þín o.s.frv. Ég fann að mig langaði ekki að ljúga lengur, mig langaði ekki að gera þeim til geðs að þykjast vera að fara á ströndina á Tel Aviv, mig langaði ekki að leyna því að ég byggi í Nablus, mig langaði ekki að halda áfram lyginni. Með því að ljúga er ég bara enn frekar að ýta undir þá hugmynd þeirra að Nablus og Vesturbakkinn sé staður sem enginn eigi að sjá eða tala um.
Þegar röðin kom svo að mér spyr 19 ára stelpan í áritunarklefanum:

Hún: hver er tilganurinn með heimsókn þinni til Ísraels?
Ég: ég vinn þar
Hún: við hvað eru að vinna þar?
Ég: ég kenni ensku og fyrstu hjálp
Hún: hvar?
Ég: í Nablus (Gunni missir anditið)
Hún: Ok (ég sá ekki viðbrögðin hennar enda andlit hennar að mestu falið bakvið hátt borð sem hún sat við)...bíddu aðeins...(hún pikkar inn í tölvuna)...sestu niður og það kemur hermaður að tala við þig á eftir.

Ég settist niður við hlið fjölskyldu sem beið þess að vera yfirheyrð. Svo kom Gunni og settist niður og beið. Svo kom Domi, svo Ciara (hún sagðist hins vegar vera túristi að ferðast um Ísrael og við þóttumst ekki þekkjast).
Eftir klukkutíma komu tvær 19 ára gelgjuhermenn:

Þær: Ok...sko það var ýkt auðvelt að finna þig...eina ljóshærða manneskjan hér...ok...hvað ertu að gera í Nablus?
Ég: ég er að kenna þar ensku og fyrstu hjálp
Þær: hjá hvaða samtökum ertu að vinna
Ég: ég er að vinna sjálfstætt, ég fer í þorp og kenni fullorðnum konum sem vilja læra skyndihjálp og ensku
Þær: hvar í Nablus býrðu?
Ég: það eru ekki götunúmer í Nablus, viltu samt götuheitið?
Þær: hvaða hverfi, Nablus er sko ýkt stór borg
Ég: Asira
Þær: með hverjum býrðu?
Ég: fullt af fólki
Þær: ertu með einhver skjöl sem sanna að þú sért að vinna í Nablus?
Ég: nei
Þær: ertu með einhver símanúmer hjá konunum sem þú kennir skyndihjálp
Ég: þær eiga ekki síma
Þær: þá verðum við að vísa þér úr landi
Ég: og hvert á ég að fara?
Þær: ég veit það ekki
Ég: á hvað forsendum viljiði vísa mér úr landi, hvers konar ógn er ég?
Þær: ok...ég er bara hermaður...þetta eru skipanir frá officernum
Ég: þá vil ég fá að tala við officerinn
Þær: ok...ég skal segja honum það

Fjórum eða fimm tímum seinna, þegar Gunnar og Domi, sem báðir sögðust vera að ferðast um og vinna á Vesturbakkanum, voru farnir í gegn með 3 mánaða visa í vegabréfunum sínum, kom officerinn. Hann var grannur, ungur maður, lítið eldri en um tvítugt, kannski 21. Hann spyr mig aftur sömu spurninga og fer. Hálftíma seinna kemur hann aftur og spyr hvað ég hafi verið að gera í Jórdaníu. Sjá Petru segi ég. Hann hverfur aftur.
Klukkutíma síðar kemur hann aftur og þá var ég orðin ansi þreytt. Ég segi við hann að ég sé að segja sannleikann, að ég hafi auðveldlega getað logið að honum. Ég þarf að komast aftur til Nablus, sagði ég, þar sé allt dótið mitt, tölvan mín og öll fötin mín eru. Ég segi honum að ég sjái ekki hvert vandamálið sé. Ég er ekki á sakaskrá, ég er ekki ógn við tilveru Ísraels, ég hafi ekki verið lengur í landinu en mér er heimilt að vera og að ég sé að vinna mannúðlegt sjálboðaliðastarf. Ég fékk hins vegar engin svör.
Nokkru seinna kemur hann til mín og réttir mér vegabréfið mitt. Ég opna það og sé að ég hafi fengið eins vikna visa. Flugið mitt fer frá Tel Aviv eftir 3 vikur og ég má ekki vera í Tel Aviv þá.

Aðskilnaðarmúrinn milli Ramallah og Jerúsalem, við Kalandía Check Point

Ciara fékk sína áritun á sama tíma og ég, nema að hún fékk það til þriggja mánaða. Þegar við löbbuðum svo burt frá vegabrefsáritunarstaðnum tók við önnur röð. Þar var mér hleypt í gegn en Ciara þurfti að bíða í hálftíma í viðbót. Engin ástæða. Bara bíða.
Þegar ég kom svo til Nablus undir nótt höfðu allir heyrt af því að ég hafi bara fengið viku visa. Meira að segja leigubílsstjóri hafi sagt Abe frá því. Stórfjölskyldan mín i Nablus hafði haft miklar áhyggjur og allir voru boðir og búnir að hjálpa til.

Erfiðast við þetta allt er að fá engin svör fyrir óréttlætinu. Ég upplifði þetta í einn dag, í eitt skipti en líf Palestínumanna er líf án svara. Óréttlæti og niðurlæging án ástæðu.

Ég fór með Abe til Tel Aviv á miðvikudaginn og reyndi að framlengja visað mitt. Hann fékk sínu framlengt en ekki ég. Ég þarf að reyna aftur á sunnudag/mánudag. Annars þarf ég að fara til Jórdaníu eða Egyptalands aftur og panta mér nýtt flug.


Árásir landnema halda áfram

5 comments:

Anonymous said...

þú hugrakka stelpa!

þetta er alveg ótrúlegt!! á bara ekki til orð!

Anonymous said...

fyrirgefðu, gleymdi að skrifa nafnið mitt.

kv
Íris A7

Anonymous said...

já, þau eru vesen, þessi vísamál.

hvað með að vera fram yfir tímann, föst í einhverri ákveðni borg?

Aðveldast í Jerúsalem, þá fattast það ekki fyrr en á flugvellinum.

Myndi samt þýða sekt og þú kæmist líklega ekki aftur til ísrael. Nema með því að breyta um nafn, skríða gegnum göngin á gaza eða ef palestína fengi nú einhvern daginn sjálfstæði og alþjóðaflugvöll.

Pæling.

Anonymous said...

jeimin eini hausinn á mér hirngsnýst..hvernig ertu að höndla þetta kona??? hetjan mín!!
kv, Ernan

Anonymous said...

Sæl Anna, takk fyrir fróðleg og upplýsandi skrif. Maður fær innsýn í veröld sem maður vildi helst ekki að væri til en vissi þó innst inni að er blákaldur raunveruleiki fjölda fólks. Dáist að hugrekki þínu, hreinskilni og staðfestu. Bestu kveðjur, Solveig Ernumamma