Sunday, August 10, 2008

"Öryggiseftirlit"

Það verður augljósara með hverjum deginum að ísraelsk stjórnvöld hafa enga heilsteypta stefnu og hafa ekki hugmynd um hvað þeir ætla sér í málefnum hertekinnar Palestínu. Svo virðist sem að aðal markmið stjórvalda sé að gera líf Palestínumanna eins ómögulegt og unnt er án þess þó að almenningur innan og utan Ísraels geri sér grein fyrir því. Mjög lúmskt og hægt þjóðarmorð.

Eina leiðin til þess að komast að því hvað sé í gangi er að búa Palestínumanna, bendla sig við þá og komast að því að eigin raun. Engu samræmi gætir í stefni ísraelskra stjórnvalda á Vesturbakkanum, hvað má og hvað má ekki, hvar má gera hvað o.s.frv. Þeir komast upp með það að brjóta á alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum daglega án þess að nokkuð sé að gert. Ég mun nefna tvö dæmi.

(1) Eins og ég hef líklega áður komið að þá mega íbúar Nablus ekki aka bílum sínum gegnum stærsta check pointið út úr borginni, Huwarrah án leyfis frá ísraelskum stjórvöldum. Sækja verður um leyfi með 3 mánaða fyrirvara og tilgreina þarf hversu lengi umsækjandi ætlar sér að vera lengi í burtu, með hverjum og af hverju. Þar að auki kostar umsóknarferlið 100 shekela. Ef umsóknin er samþykkt þá fær umsækjandinn tilgreinda dagsetningu og tíma sem honum er veitt leyfi, t.d. 6. september frá 09-18.

Dagurinn kemur og umsækjandinn keyrir á bílnum sínum í átt að Huwarrah. Þar bíður hans 20 bíla röð og umsækjandinn eyðir góðum hluta tímans sem honum er veitt leyfi í að bíða. Þegar röðin kemur að hans bíl er öllum sem í bílnum eru gert að ganga út úr bílnum, stundum með hendur á lofti, ganga burt frá bílnum og lyfta upp bolunum sínum og skálmum. Því næst er þeim gert að standa til hliðar á meðan að bílinn er rannsakaður til hlýtar.

Nú hugsa sumir sem kunna að lesa þetta: "þetta er nauðsynlegt til þess að tryggja öryggi ísraelskra borgara".

En hvernig stendur þá á því að íbúar Nablus geti komist hjá þessu veseni og ekið 1 1/2 tíma fjallaleið framhjá "öryggiseftirlitinu" og komið niður hinum megin við Huwarrah? Og það með fullri vitneskju ísraelska hersins.

Á kortinu sést Nablus og þorpin í kringum borgina (gult) og ólöglegar landnemabyggðir Ísraela í kring (rautt). Check point eru merkt með einstefnumerki og bláir vegir eru eingöngu ætlaðir gyðingum

Strákur sem á íbúðina sem Project Hope leigir bauð mér í bíltúr og sýndi mér leiðina framhjá “öryggiseftirlitinu”. Við lögðum af stað frá heimili mínu á Ashara Asira um kl. 21 á sportbílnum hans og ókum í átt að Asira. Veginum frá Nablus að Asira er lokað klukkan 22 þannig að við vissum að við þyrftum að aka aðra leið heim. Vegurinn var grýttur og á köflum þurftum við að keyra utan vegar þar sem svokölluðum “earth mounds” hefur verið komið fyrir (hrúga af grjóti og sandi þvert yfir veginn). Við keyrðum gegnum Sabastya og Bizzanya áður en við komum að Enav check pointi. Hermennirnir sem tóku á móti okkur á Enav vissu að við værum að koma frá Nablus og að við værum á leiðinni til Ramallah. Það sást á glotti hermannanna að þeir eru vel meðvitaðir um að fólk fari þessa leið frá Nablus reglulega. Eftir nokkrar móðganir í okkar garð (að ég tali lélega ensku, án þess þó að athuga vegabréf, skilríki eða bílinn sjálfan, var okkur hleypt í gegn.
Þar fór öryggiseftirlitið fyrir lítið. Samkvæmt samræmingarskrifstofu SÞ eru Palestínumenn sem aka þessa leið ekki að brjóta í bága við ísraelsk lög.

Eftir Enav keyðrum við nútímalegan, beinan og greiðan veg í átt að Huwarrah. Eins og sjá má á kortinu er sá vegur einkum ætlaður landnemum frá Enav landnemabyggðinni. Það var skrítið að sjá svo Huwarrah check point út um bílgluggan, aðeins í um 10 mínútna fjarlægð frá íbúðinni minni.
Til þess að flækja flókann enn meira, og lengja ferðina enn frekar, þurftum við að fara aðra leið heim. Í stað þess að keyra Asira veginn að Nablus, eins og á leiðinni út, þurftum við að keyra norður til Taluza, gegnum Al Badhan og koma aftur til Nablus gegnum Askar flóttamannabúðirnar, því eins og ég minntist á áðan lokar Asira vegurinn klukkan 22.
Strákurinn sem sýndi mér þessa leið sagði mér einnig að það væri lítið mál að komast alla leið til Ísraels, hann þyrfti bara að punga út 200 shekelum og hringja í símanúmer hjá Ísraela sem stundar það að smygla fólki í gegn.

Abe

(2) Ég fór um helgina ásamt Abe og Kim norður til Akko, en Abe vildi fara þangað og sjá síðasta athvarf krossfaranna. Við ákáðum að reyna styðstu leiðina þangað frá Nablus, gegnum Jenin og “landamæri” Vesturbakkans (sem er í raun rangnefni því það er í raun enginn Vesturbakki til lengur, alla vega ekki í þeim skilningi sem lagt hefur verið í orðið hingað til) og Ísraels. Við fórum með servís alla leið að landamærastöðinni en þar fer fram strangt “öryggiseftirlit” sem Abe lýsti réttilega eftir á sem “obstacle course”.

Það var enginn að fara í gegnum landamærastöðina nema við og við fyrstu sýn virtist enginn vera á verði og án þess að ræða það nokkuð frekar löbbuðum í gegnum málmleitartækið með töskurnar á bakinu. Tækið pípti að sjálfsögðu og við litum ósjálfrátt í kringum okkur. Þá heyrðum við rödd kalla í hátalarakerfi: “Farið til baka, skiljið töskurnar eftir á borðinu, tæmið vasana, takiði af ykkur beltin og labbið aftur í gegn”. Við litum betur í kringum okkur og sáum að það var maður inn í brynvörðum járnklumpi á vinstri hönd. Eftir að við höfðum gert eins og hann sagði bað hann okkur vinsamlegast um að opna töskurnar okkar og sýna honum innihaldið. “Hvaðan eruð þið?” spyr náunginn.

Þetta var aðeins fyrst hluti hindrunarhlaupsins. Þegar við komum inn í bygginguna sáum við fullt af hurðum og á einni þeirra var A4 blað þar sem einhver hafði teiknað ör á. Við litum hvort á annað glottandi og aftur án þess að segja nokkuð gengum við inn um merktu hurðina. Þar var röntgentæki og til beggja handa voru hermenn inn í klefa. Okkur var bent á að setja töskurnar okkar, beltin, myndavélarnar og annað sem við vorum með í vösunum gegnum röntgentækið. Hermennirnir töluðu hver ofan í annan og spurðu okkur til skiptis hvaðan við værum, hvað væri í töskunum og hvort við værum með vegabréfsáritun. Ég framvísaði vegabréfinu mínu og hermaðurinn bað mig um að opna töskuna mína, taka Lonley Planet bókina mína upp úr henni og fletta í gegnum hana. Abe og Kim þurftu að gera það sama.

Þegar þessi hluti “öryggiseftirlitsins” var yfirstaðinn héldum við að gamanið væri búið, en svo var aldeilis ekki. Hermennirnir bentu okkur á að yfirgefa herbergið og ganga í gegnum hurð nr. 1. Við opnuðum hurð sem merkt var nr. 1 (aftur krot á A4 blaði) og við okkur blasti 4 fm klefi með þrem útgöngm. Hurðin lokaðist á eftir okkur og við komumst hvergi út, allar hurðirnar voru læstar. Rödd kallaði í hátalarakerfi: “Labbið inn um hurðina á hægri hönd og skiljið eftir töskurnar ykkar og myndavélarnar og farið aftur til baka”. Bizz, hurðin opnaðist. Við gerðum eins og hann sagði þegjandi og hljóðalaust og gengum aftur til baka í rými nr.1.

Eftir smástund, þegar ég hafði sest á gólfið, var kallað aftur í hátalarakerfið: “Afsakið, ég var ekki nógu skýr, takið veskin ykkar og vegabréfin upp úr töskunum og skiljið þau eftir þar sem við sjáum þau”. Bizz, hurðin opnaðist. Við horfðum hvort á annað í vantrú en gerðum samt það sem við vorum beðin um. Við biðum í nokkrar mínútur þangað til röddin hljómaði aftur í hátalarakerfinu: “Takk fyrir samvinnuna, þið megið sækja töskurnar ykkar og fara gegnum hurðina á vinstri hönd”. Nú hlaut þetta að vera búið hugsaði ég með mér.

Þegar við yfirgáfum rými nr. 1 sá ég betur að um var að ræða hálfgert vöruhús. Fyrir ofan okkur gekk dökkhærður, síðhærður maður með vélbyssu, klæddur í hvítan stuttermabol og svartar gallabuxur. Maðurinn gekk um á málm gólfi fyrir ofan okkur og sjónin minnti mig helst á atriði úr Die Hard bíómynd. Rýmið var opið og stórt og fyrir framan okkur voru nokkrir básar þar sem vegabréfseftirlit fer fram. Í einum básnum situr stúlka klædd svipuðum fötum og maðurinn með vélbyssuna. Hún biður okkur um framvísa vegabréfunum okkar og eftir smá umhugsun bendir hún okkur á að setjast niður og bíða. Á bekknum situr maður á sextugsaldri með kartöflur í trefjapoka. Hann segir okkur að hann sé frá Jenin en vinni stundum Ísraelsmegin.
Stúlkan sem tók vegabréfin okkar talaði í síma og horfði á okkur á meðan. Eftir nokkrar mínútur komu maður og kona í sömu einkennisklæðum, tóku vegabréfin okkar og fóru inn í einn básinn. Við sáum hvernig þau ræddu heillengi saman og horðu á okkur inn á milli. Eftir um 10 mínútur yfirgáfu þau básinn en héldu þó áfram að ræða saman. Nokkru seinna kalla þau til Abes og biðja hann um að koma. Abe er orðinn frekar heyrnarskertur enda orðinn 73 ára gamall og við heyrðum því skýrt og greinilega hvað fór þeim á milli. Konan sá um að spyrja spurninganna en maðurinn stóð við hlið hennar og sagði ekki orð. Abe sagði þeim einfaldlega sannleikann, að við værum að koma frá Nablus þar sem við ynnum hjá Project Hope við enskukennslu og að við værum á leiðinni að skoða Akko. Þau spurðu hann hvernig við þekktumst, af hverju við værum að ferðast saman o.s.frv. Þegar yfirheyrslan yfir Abe var yfirstaðinn gekk hann aftur að bekknum til okkar og “hvíslaði”: “Haldið ykkur við sannleikann, ég endurtek, haldið ykkur við sannleikann”.

Næst kölluðu þau eftir Kim. Kimberley, eins og hann heitir réttu nafni, er maður á fimmtugsaldri frá Ástralíu. Hann hefur ferðast töluvert og þeir Abe hafa þekkst síðan 2006. Við heyrðum ekkert af því sem fór þeirra á milli en ég var farinn að finna til mikillar reiði í garð konunnar, eða réttara sagt stelpunnar, sem sá um yfirheyrsluna.
Kim kom til baka og ég beið eftir því að þau myndu kalla á mig. “Anna”. Ég gekk til þeirra og ég fann hvernig hjartað á mér var á fullu, mér stökk ekki bros á vör.

Hún: “Ég er frá öryggiseftirlitinu og ætla að spyrja þig nokkurra spurninga”
Ég: “Ekkert mál”
Hún: “Hvaðan ertu að koma?”
Ég: “Ég er að koma frá Nablus”
Hún: “Hvað vastu að gera í Nablus?”
Ég: “Ég kenni ensku þar”
Hún: “Hjá hvaða samtökum”
Ég: “Project Hope”
Hún: “Hvað ertu búin að vera þar lengi?”
Ég: “Rúmlega 10 vikur”
Hún: “Er þetta í fyrsta skiptið þitt á Vesturbakkanum?”
Ég: “Nei, ég kom til Palestínu fyrir þremur árum”
Hún: “Hvað varstu lengi þá?”
Ég: “Tæpan mánuð”. Hún vissi alveg svarið við spurningunni minni, búin að rannsaka vegabréfið mitt í meira en hálfa klukkustund.
Hún: “Hvert ertu að fara?”
Ég: “Við erum að fara til Acco og ætlum að gista þar í eina nótt”
Hún: “Hver eru tengslin milli þín og þeirra?” Hún benti á Abe og Kim.
Ég: “Við vinnum öll saman”
Hún: “Hvert ætliði að fara eftir Acco?”
Ég: “Ég veit ekki með þá en ég er að spá í að fara jafnvel til Haifa og fara á ströndina í nokkra klukkutíma. Kannski ákveða þeir að gera eitthvað annað”
Hún: “Nú eruði ekki að ferðast saman?”

Nú var hún virkilega farin að stuða mig. Hvað kemur það henni við hvað ég sé nákvæmlega að fara gera og með hverjum? Hvað hefur það með öryggiseftirlit að gera? Þau vita nákvæmlega hver ég er, hvað ég er með í töskunni minni, hvaða myndir ég hef tekið, hvernig handklæðið mitt er á litinn og hvaða stærð og tegund af nærbuxum ég nota.

Ég: “Jú, jú, við erum samferða, en ég er frjáls manneskja og kem frá landi þar sem fólk er frjálst og ég get farið þangað sem mér sýnist. Ef mig langar á ströndina þá fer ég þangað”

Þetta setti hana aðeins út af laginu. Hún leit niður og svo á manninn og svo til mín.

Hún: “Þú mátt setjast niður aftur”
Þau gengu aftur inn í básinn og fóru að tala saman. Ég settist niður hjá Abe og Kim og við biðum. Abe var orðinn ansi óþreigjufullur þegar við höfðum beðið í 15 mínútur. Maðurinn með kartöflupokann var farinn, hann fékk að fara aftur heim til sín. Abe gekk að básnum og kallaði: “Hvað er eiginlega í gangi? Fáum við að fara í gegn eða ekki? Getum við ekki bara fengið vegabréfin okkar aftur og farið gegnum Jerúsalem?”

Maðurinn og konan komu út úr básnum og sögðu okkur að við mættum fara í gegn en að við þyrftum leyfi frá ísraelsher til þess að fara inn á Vesturbakkann. Að við hefðum farið inn á lokað “stríðssvæði” án þess að sækja um leyfi hjá hernum. Við bentum henni á það að þetta væri í fyrsta skiptið sem að við hefðum heyrt af þessu, að hver sá sem vill kemst inn á Vesturbakann gegnum Jerúsalem án þess að sýna nokkurri einustu manneskju vegabréf. Hún sagði að það kæmi sér ekki við, þetta væru hennar fyrirmæli og hún sé bara að fylgja þeim.

Við fórum lengri leiðina heim.

Maður spyr sig eftir á hvort það sé tilviljun að stysta leiðin sé sú erfiðasta, í báðum dæmunum sem ég nefni. Hvort að ísraelsk stjórvöld vinni svo gjörsamlega án allrar samfellu eða hvort að þetta sé nákvæmlega planið, að gera líf Palestínumanna eins erfitt og óbærilegt og unnt er.

“Ófriður er árangursríkari en friður” heyrði ég í dag. Á Vesturbakkanum ríkir friður, engin mótstaða, engin uppreisn, allt með kyrrum kjörum og ekkert er gert. Ekkert breytist. Öðru máli gegnir um Gaza og Líbanon, svo virðist sem að ófriður og ógn í garð Ísraelsmanna sé það eina sem virki þessa daganna.

1 comment:

Anonymous said...

Sæl Anna, þetta er Hlédís.

Takk fyrir að deila þessu með okkur, fínar frásagnir. Hvað verðuru lengi úti? Var bara að heyra af blogginu þínu áðan. Sá að þú býrð í Nablus, hefuru eitthvað hitt "Madstí"?

Kem til með að fylgjast með þér, ef alltaf að skoða það að koma aftur, jafnvel núna um jólin.

Bestu kveðjur!!!