Thursday, August 7, 2008

Vegabréfsáritun

Við Dominique fórum frá Nablus síðasta sunnudag. Hann átti flug frá Tel Aviv aðfararnótt þriðjudagsins og ég þurfti að framlengja vegabréfsárituninni minni. Það skemmtilega við að vera með Dominique er að það er ekkert stress, við þurfum ekki einu sinni að tala saman, bara þögult samþykki um að leyfa hlutunum að koma í ljós, að þróast í þá átt sem þeim er ætlað, nokkuð sem við sem alþjóðafólk getum gert. Ekkert plan, bara hugmynd.

Huwarra Check Point

Til að komast frá Nablus þarf maður í fyrsta lagi að taka servís að Huwarra check pointi sem er í um 5 mínútna akstursfjarlægð frá miðbænum. Servísinn stoppar í um 500 m fjarlægð frá check pointinu sjálfu innan um hrúgu af öðrum servísum sem ferja fólk niður í bæ og upp úr bæ. Við tekur nokkra mínútna gangur að check pointinu, þríhryrndu skýli við veginn, þar sem fólk skipar sér í raðir; ein fyrir konur, fjölskyldur, aldraða og aðrar tvær fyrir karlmenn á aldrinum 18-45 ára. Biðin er alls ekki svo löng hjá okkur sem förum í konu/fjölskylduröðina, kannski í kringum 10 mínútur, en karlmennirnir bíða upp í 3 klst eftir því að komast í gegn. Þeim er hleypt í gegn eftir geðþótta, oftast á hraðanum 10 menn/klst. Það gefur auga leið að það tekur ekki 6 mínútur að labba gegnum málmleitartæki. Röðin líður áfram og maður bíður eftir merki frá hermanninum að maður megi ganga yfir rauðu línuna í áttina að honum. Ég hef skjaldnast lyst á því að tala við hermennina. Rétti vegabréf, bendi á ICELAND framan á vegabréfinu þegar hann spyr hvaðan ég sé, horfi á hann eins og hann sé geimvera þegar hann spyr hvað ég sé að vilja í illa lyktandi bæli eins og Nablus og bíð eftir að hann gefi mér merki um að ég megi fara í gegn. Þeir eiga það jafnvel til að kalla á eftir manni "Go to Tel Aviv".

Servísarnir

Hinum megin við Huwarra eru stórir servísar sem ferja 7 farþega í einu. Bílstjórarnir kalla í kappi við hvern annan "Jericho", "Ramallah, Ramallah", "Bethlehem" og þar fram eftir götunum. Við settumst upp í servís á leið til Ramallah, án þess að ræða það eitthvað sérstaklega. Með okkur í öftustu sætunum var strákur. Hann var í kringum 25 ára, klæddur eins og aðrir Nablus strákar; gallabuxur, köflótt, hneppt skyrta, strigaskór og hálf túpa af geli í hárinu. Dominique er sérstakur af því leiti að hann hugsar eins og barn, algerlega óháður öllum staðalímyndum og æskilegri hegðun. Hann hélt í sætisbakið fyrir framan sig, beygði sig og snéri og leit í allar áttir. Hann og strákurinn byrja að tala saman með handapati og stikkorðum. Benda á þorp og segja nafnið á þeim. Strákurinn tekur upp símann sinn og gefur Dominique merki um að horfa á video á símanum sínum. Videoið byrjaði þannig að ísraelskur herjeppi nemur staðar og þrír hermenn stökkva út úr honum. Þeir læðast hratt áfram og miða hríðslotabyssunum sínum í allar áttir. Svo þegar ég var alveg sannfærð um að eitthvað hræðilegt væri að fara að gerast öskrar hermaður í kallkerfi úr bílnum, arabísk tónlist hljómar og hermennirnir fara að dansa.

Arafat og Domi

Dominique og strákurinn, sem heitir Arafat, verða fljótlega hinir mestu mátar, Arafat gefur Dominique skyrtu úr pokanum sínum (hann vinnur í fataverslun í Ramallah en er frá Nablus) og Dominique gefur Arafat derhúfuna sína. Þeir taka myndir af hvor öðrum, takast í hendur og halda áfram að skoða video. Eftir klukkustund, tvö check point í viðbót og brotnar samræður við Arafat komum við til Ramallah. Arafat bauð okkur með sér á kaffihús. Við drukkum ávaxtakokteila og reyktum nargilu, Dominique í nýju skyrtunni sinni og Arafat með nýja hattinn sinn. Við ákváðum að koma okkur til Jerúsalem og Arafat fylgdi okkur að servísstöðinni, fleiri myndir voru teknar og við kvöddumst.

Kalandía Check Point

Rúta númer 18 keyrir frá Ramallah til Jerúsalem. Ferðin tekur um 45 mínútur þó aðeins sé um að ræða 15 km. Á Kalandía check pointi, milli Ramallah og Jerúsalem, fer fram öryggiseftirlit. En það sem er kannski skrítnast við öryggiseftirlitið er að það er ekkiert öryggiseftirlit, aðeins aðskilnaðaraðgerð. Hermaður kemur inn í rútuna, biður fólk um skilríki. Þeir sem eru með grænt skilríki en ekki leyfi frá ísraelska ríkinu eru beðnir um að yfirgefa rútuna og snúa til baka. Blá skilríki og erlend vegabréf með vegabréfsáritun fá að fara í gegn.

Múrinn milli Jerúsalem og Ramallah

Frá check pointinu keyrum við svo meðfram múrnum og inn í Jerúsalem. Ramallah var áður fyrr kristið úthverfi Jerúsalem en með tíð og tíma og nauðungaflutningum Palestínumanna frá Jersúalem hefur Ramallah orðið eins konar flóttamannanýlenda. Borg sem myndaðist sem afleiðing hernámsins, ótýpísk palestínsk borg.

Damascus hliðið

Við komum til Jerúsalem um 21 og röltum af stað í átt að Damascus hliðinu í A-Jerúsalem, kíktum inn á hostel í gömlu borginni en enduðum á gamla góða Faisal sem er rétt utan við gömlu borgina. Þar hittum við tvo spænska menn sem bjuggu í Askar flóttamannabúðunum í Nablus í nokkrar vikur. Við settumst niður með þeim, sötruðum á bjór, reyktum nargilu, töluðum um Palestínu, deildum myndum og reynslusögum. Það var afskaplega notalegt.

Faisal hostel

Snemma morguninn eftir kvaddi ég Dominique og hélt af stað til Tel Aviv. Hann ætlaði að vera eftir í Jerúsalem, senda geilsladiska með pósti og jafnvel fara með spænsku strákunum að fylgjast með því þegar ísraelsk stjórnvöld jafna hús Palestínumanna við jörðu. Ég tók rútu frá V-Jerúsalem til Tel Aviv og reyndi að finna leigubíl til þess að finna innanríkisráðuneytið. Ég fann leigubílstjóra og reyndi að útskýra fyrir honum hvert ég vildi fara, Ministry of Interior, visa extension, passport, big building, big street. Hann þóttist skilja hvað ég átti við, reif kjaft alla leiðina, rukkaði mig 1000 kr, og rak mig úr bílnum fyrir framan kreditkortafyrirtæki. "Visa" sagði hann og benti á stóra byggingu. "No, this is not it". "Yes, this!"
Ég fór úr leigubílnum 1000 kr. fátækari og á röngum stað. Ég sá innanríkisráðuneytið í fjarlægð, gekk í áttina og var komin þangað 20 mínútum síðar. Eftir 4 tíma var ég svo komin með vegabréfsáritun fram að brottför. Engar spurningar, engin yfirheyrsla.

Nablus

Ég tók næsta strætó aftur að umferðar- miðstöðinni og tók næstu rútu til Jerúsalem. Í stað þess að taka strætó frá V-Jerúsalem til A-Jerúsalem ákvað ég að genga endilanga Jaffa götu. Þar rakst ég fyrir tilviljun á Dominique og annan spænska gaurinn. Þeir voru á leið inn í póthúsið þegar ég rakst á þá. Þeir sögðu mér að hinn spænski blaðamaðurinn hafi farið til Hebron um morguninn, orðið fyrir grjótkasti frá landnemunum og hann handtekinn í kjölfarið. Hann var handtekinn fyrir að verða fyrir grjótkasti. Það verður líklega til þess að hann fái ekki að koma aftur til Ísraels næstu 5-10 árin.
Við Dominique yfirgáfum Spánverjan og röltum niður í gömlu borg, settumst þar niður og drukkum kaffi. Um kvöldið kvöddumst við svo aftur og ég snéri til baka til Nablus.

4 comments:

egummig said...

Langaði bara að kvitta fyrir innlitið :)
rosalega gaman að lesa það sem þú skrifar !

Unknown said...

En hvað ég er glöð að heyra að Faisal er ennþá til! Ekki er Muhammad ennþá að vinna þar?

Kveðja, Ester

domi said...
This comment has been removed by the author.
domi said...

heureux d'avoir partagé ces moments avec vous Anna! Domi.