Friday, July 18, 2008

Daglega lífið í Nablus

Nú er farið að líða á seinni hluta verunnar hér í Nablus og tilfinningarnar eru blendnar. Sum kvöld hugleiði ég hvernig ég get frestað heimför en önnur langar mig sárlega að komast heim til Íslands.

Það hefur verið nóg að gera hjá mér alla virka daga svo ég get ekki kvartað undan aðgerðarleysi. Á sunnudögum er ég með skyndihjálparnámskeið og enskutíma í Beit Dejan frá 10 til 13. Til að komast til Beit Dejan, sem er í um 10 km fjarlægð frá Nablus, þarf maður að fara í gegnum check-point. Ástæðan er sú að það liggur landnemavegur þvert á milli Nablus og þorpanna í kringum borgina. Almennt gildir að þeir sem eru ekki íbúar í Beit Dejan og Beit Furik mega ekki fara gegnum þetta check-point. Það hefur því verið allt annað en auðvelt að komast þar í gegn til að sinna kennslunni því ég þarf að hafa með mér palestínskan sjálfboðaliða til að túlka fyrir mig skyndihjálpina.

Beit Dejan check-point

Við þurfum því að leggja af stað ekki seinna en 9 á morgnana til þess að vera viss um að vera komin til Beit Dejan á réttum tíma. Undantekningalaust hafa hermennirnir gert okkur erfitt að komast í gegn. Aðtburðarásin er yfirleitt svona:
Við bíðum þangað til járn-snúningshurðin er opnuð með rafrænum hnappi, það getur tekið frá nokkrum sekúndum upp í hálftíma Við löbbum gegnum snúningshurðina að kofanum þar sem hermennirnir eru. Flestir þeirra eru í kringum 20 ára, hlusta á útvarpið og narta í brauð og hummus. Þegar þeir sjá okkur glotta þeir og spyrja um vegabréf. Hjartað mitt slær á fullu, ekki af hræðslu heldur vegna óréttlætisins. Ég rétti þeim vegabréfið gegnum 10 cm breiða rauf, þau skoða það og spyrja svo á bjagaðri ensku hvaðan ég sé. Oftast bendi ég þeim á að lesa framan á vegabréfið enda stendur þar skýrum stöfum hvaðan ég sé. Næst spyrja hermennirnir hvað ég sé að gera í Nablus og hvað ég vilji til Beit Dejan. Ég segist dveljast í Nablus og sé að vinna þar fyrir Project Hope (ekki það að það sé ekki augljóst þar sem við klæðumst vel merktum vestum frá samtökunum). Svo er það palestínski sjálfboðaliðinn. Hvað er hann að vilja? Þau biðja hann um að framvísa persónuskilríki en þegar þau sjá að hann er frá Nablus segja þau að hann megi ekki fara í gegn. Ég spyr af hverju og svarið er af því að hann er frá Nablus. Ég spyr af hverju það sé og fæ engin svör. Þau endurtaka að hann megi ekki fara í gegn. Þá segist ég fara hér í gegn í hverri viku og ég þurfi að hafa með mér túlk. Þá ná þau í einhvern sem er hærra settur og yfirheyrslan er endurtekin. Hermaðurinn sem er hærra settur kallar einhvað í talstöðina og eftir 10 mínútur gefur hann okkur leyfi til að fara í gegn, enda vita yfirmenn hersins vel hver við erum. Við löbbum af stað gegnum aðra járn-snúningshurð og höldum af stað til Beit Dejan.

Konurnar að æfa vafninga

Burt séð frá check-pointinu er búið að vera rosalega gaman að kenna skyndihjálpina í Beit Dejan og konurnar eru með eindæmum áhugasamar. Næsta sunnudag verður síðasta námskeiðið og þá munum við tala um meðgöngu, fæðingu og fóturmissi. Það verður eflaust áhugavert að tala við konur sem flestar eiga fleiri en 10 börn um meðgöngu og fæðingu.

Á tröppunum fyrir utan skrifstofu Project Hope

Þegar ég kem svo til baka til Nablus frá Beit Dejan kenni ég enskutíma á skrifstofu Project Hope. Þann tíma kenni ég þrisvar í viku; á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum frá 15 til 16. Bekkurninn samanstendur af 3 stelpum og 15 strákum. Flest þeirra eru háskólanemar á aldrinum 19 til 22 ára og koma í enskutímana beint eftir tíma í háskólanum. Í Nablus er fátt annað að gera en að fara beint í háskóla því þá opnast mögulega dyr út úr Nablus, einhvert annað í framhaldsnám. Litlar líkur eru þó á því að fá vinnu við sína sérhæfingu við námslok. Sem dæmi þekki ég sálfræðing sem er í palestínsku löggunni og hef hitt húsmóður og leigubílsstjóra með verkfræðimenntun. Við tölum um allt milli himins og jarðar í enskutímunum; pólitík, landafræði, fjölskyldu, trú, hetjur, sögu o.s.frv. Í flestum tilfellum er ég búin að undirbúa tímana fyrirfram en oftar en ekki förum við út fyrir áætluð viðfangsefni. Nemendurnir eru alveg afskaplega fróðleiksfúsir og metnaðarfullir. Sumir auðvitað meira en aðrir☺

Project Hope sjálfboðaliðar

Á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum hitti ég svo PYALARA hópinn minn í félagsmiðstöð þeirra og kenni ensku frá 14 til 15 eða 16. Þar er meirihluti nemendanna stelpur og eru á aldrinum 19-27 ára. Hópurinn er rosalega virkur og meðvitaður um hernámið og þau hafa gefið mér verðmæta innsýn í hugarheim ungs fólks á Vesturbakkanum. Ég hef eignast tvær góðar vinkonur þar, Malak og Isra, sem báðar eru 20 ára. Við förum saman eftir mánudags- og miðvikudagstímana, kaupum ís og setjumst saman í almenningsgarðinn. Malak er stelpa sem býr í þorpi rétt fyrir utan Nablus sem heimir Salem. Hún er að læra stærðfræði í háskólanum en dreymir um að vera listamaður. Hún teiknað alveg ótrúlegar myndir og hefur sérstakan áhuga á teikna myndir í japönskum teiknimyndastíl. Fjölskyldan hennar flutti aftur til Palestínu í fyrra eftir 17 ára dvöl í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hún bauð mér í heimsókn til sín á miðvikudaginn eftir tíma og ég sló til. Öll ættin hennar býr í Salem og búa skammt frá öðru í þorpinu. Ég fékk uppáhalds palestínska matinn minn, enda hafði Malak spurt mig fyrirfram. Fjölskyldan hennar, foreldrar, systur og bræður, tók vel á móti mér og allir voða forvitnir hvernig stæði á því að ég væri í Palestínu og hvernig mér líkaði. Að sjálfsögðu var boðið upp á te og með því eftir matinn en þá fór að streyma að ættingjar Malak og þau voru öll að tala um það hversu lík ég væri tyrkneskum sápuóperuleikara. Ég komst svo að því að sá leikari er ljóshærður og bláeygður karlmaður. Við Malak og nokkrir krakkar löbbuðum upp fjallið við útjaðar þorpsins og nutum útsýnisins yfir þorpið. Útsýnið í hina áttina var svo yfir fyrrnefnda landnemabyggð. Eftir að við komum niður í þorpið aftur teiknaði eldri systir Malak henna á hendina á mér. Þau vildu öll að ég myndi gista hjá þeim en ég afþakkaði pent enda virkur dagur daginn eftir og nóg að gera.

Á þriðjudögum og fimmtudögum er ég svo með enskutíma fyrir byrjendur í húsnæði frönsku menningarmiðstöðvarinnar frá 15 til 16. Þar er fólk á ýmsum aldri, frá 18 og upp úr. Fyrir mér er það erfiðasti tíminn vegna þess að fæstir eru færir um að mynda setningar á ensku nema að fá smá tíma til að undirbúa sig. Svo er málfræði kunnátta mín ekki upp á marga fiskana, hvað þetta allt heitir og reglurnar.

Tónleikar í háskólanum

Ég vakna oftast um 9 og tek servís niður að Dawar, sem er aðaltorgið í Nablus, þar sem ég kaupi mér ávaxtakoteil. Þaðan labba ég svo um 20 mínútna leið upp á skrifstofu með viðkomu í sjoppu og kaupi kók. Upp á skrifstofu hefst ég svo handa við að undirbúa tíma dagsins auk þess að vinna í skyndihjálparbæklingnum, sem er við það að vera tilbúinn í prent. Anas, palestínskur háskólanemi og sjálboðaliði hjá Project Hope, er búinn að þýða megnið af honum og Tharwa, skipuleggjandi enskutímanna, er þessa dagana að fara yfir þýðinguna. Svo er Ciora, írskur sjálboðaliði, að teikna myndir fyrir bæklinginn. Eftir vinnu er ýmist sjálboðaliðamatur, sjálboðaliðafundur, tóleikar, heimatilbúinn matur frá Fino eða heimboð. Ég er oftast komin heim um 22 á kvöldin og þá hefur maður rétt tíma til að fara í sturtu og svo að sofa.

Í íbúðinni minni

Ég er að vonast til að allt verði tilbúið fyrir prentun í næstu viku áður en ég fer til Amman, en þangað er ég að fara ásamt Gunnari, Cioru, Rozinu og Shanu 24. júli. Eftir að ég kem til baka, þann 28, langar mig að heimsækja öll þorpin þar sem ég kenndi skyndihjálp og afhenta bæklinga og viðurkenningarkjöl. Þess má geta að Félagið Ísland-Palestína hefur samþykkt að styrkja útgáfu bæklingsisns. Svo erum við Abe að spá í að fara til Egyptalands í byrjun ágúst og vera í viku og koma svo aftur til Nablus, sækja dótið okkar og kveðja. Hann flýgur heim 12 og ég 18, þannig að ég er að spá í að eyða síðustu dögunum í Haifa í afslöppun.

Jæja, þetta er alla vega planið eins og stendur fram að heimför. Mér finnst vera svo stuttur tíma þangað til ég kem.

4 comments:

Anonymous said...

Alltaf gaman að kíkja á bloggið þitt og fá fréttir af þér. Það verður gaman að fá þig aftur í vinnuna ;)
Greinilega mikið að gera hjá þér.

Hafðu það sem allra best

Masalama

Íris (fra A7)

Anonymous said...

já mikið að gera hjá þér Anna mín og ég er viss um þetta sé æðislegt og mikið ævintýri :)
Gangi þér sem best og ég er rosa stolt af þér..
sakna þín
kv. Steinunn systa

Anonymous said...

haha, ég veit svo nákvæmlega hvaða gaur þau eru að tala um. Þetta var alltaf í sjónvarpinu þarna úti, sápan heitir Nour.
Fann þessa, reyndar dökkhærður þarna:

http://www.mbc.net/mbc.net/English/Image/MBC%204/movie%20image/NOOR_28_4_08_L.jpg

Anonymous said...

Elsku Anna okkar
Gott að lesa bloggið þitt. Haltu áfrma þínu góða starfi, við erum stolt af þér
Mamma og pabbi