Tuesday, July 22, 2008

Tulkerem, Nablus og Beit Dejan

Múrinn milli Tulkerem og Ísraels

Á laugardaginn fórum við Shana með Abe að heimsækja bernskuslóðir Abes og hittum ættingja sem hann á þar ennþá. Abe er fæddur og uppalinn í Tulkarem ásamt 11 systkinum, en þangað fluttu foreldrar hans, ásamt ömmu hans og afa, frá Nablus í kringum 1930. Abe yfirgaf Tulkarem árið 1953 og hélt til Túnis þar sem hann vann sér inn pening til þess að geta stundað nám í Bandaríkjunum. Hann sagði mér frá því að þegar hann kom til Bandaríkjanna átti hann 150 dali og föt til skiptanna. Eftir að hann lauk prófi í verkfræði giftist hann og eignaðist þrjú börn. Abe snéri ekki aftur til Palestínu fyrr en 50 árum síðar, árið 2004, þá tæplega sjötugur.

Fjölskylda Abes bjó áfram í Tulkarem allt fram til 1967, þegar sex daga stríðið braust út. Þar sem Tulkarem er við “landamæri” Ísraels og Palestínu flúðu þau til þorps rétt vestan við Tulkarem þar sem þau hugsuðu sér að vera á meðan átökin stæðu yfir. Nokkrum dögum seinna komu ísraelskar rútur til þorpsins og öllum íbúunum var gert að fara um borð. Rúturnar keyrðu svo fólkið að austurbakka Jórdanár. Abe sagði mér frá því hvernig fólkið, þar á meðal amma hans á áttræðisaldri, þurfti að koma sér fótgangandi til næsta bæjar í Jórdaníu. Ferðin tók tæpan sólarhring.
Nú býr fjölskylda Abes í Jórdaníu, Saudi Arabiu, Túnis, Bandaríkjunum og Egyptalandi. Hann orðaði það svo að Palestínumenn væru gyðingar 21. aldarinnar.

Konurnar í Beit Dejan

Við Tharwa fórum til Beit Dejan í gær að kenna síðasta skyndihjálparnámskeiðið! Og ekkert vesen á check-pointinu! Og ég er loksins búin að skila af mér efninu í handbókina. Það er ákveðinn léttir, en um leið er það endir á áhugaverðu tímabili sem hefur verið afskaplega gefandi. Burt séð frá því að hafa kynnst frábærum konum í Beit Dejan þá hef ég lært margt nýtt og rifjað upp gamalt. Í gær talaði ég við konurnar um fósturþroska og stiklaði þar á stóru enda tæki það heila önn að fara náið út í fósturfræðina. Konurnar, sem allar eiga helling af börnum, spurðu mig spjörunum úr; um hjartagalla, brjóstsviða á meðgöngu, þroskaskerðingu í kjölfar erfiðrar fæðingar, samvexti í legi, getnaðarvarnir, keisaraskurði og svo mætti lengi telja. Ég svaraði af bestu getu og ég lofsöng Guðrúnu Péturs í huganum.

Það hafði greinilega spurst út í þorpinu að við værum að fara að tala um meðgöngu og fæðingu því það var met aðsókn, venjulega mæta á bilinu 15-20 konur en í þetta skiptið mættu um 40 konur. Vegna fjöldans skapaðist svolítil ringulreið á köflum þannig að við þurftum að banka reglulega í borðið og biðja konurnar um að bíða með spurningar þangað til í lok hvers hluta. Eftir meðgönguhlutann töluðum við svo um fæðingu, hvernig hún skiptist í þrjú stig og hvernig skyndihjálpari á að bregðast við ef hann þarf að aðstoða við fæðingu. Eftir tímann komu sumar konurnar til okkar og spurðu enn frekar um hinar og þessar aðstæður sem þær, eða einhver nákomin þeim hefur upplifað. Síðasta spurningin var svo hvenær næsta skyndihjálparnámskeiðið yrði☺

Enskutíminn í Beit Dejan

Strax á eftir skyndihjálpina var ég svo með enskutíma í kvennamiðstöðinni að vanda og við lærðum um sögnina “to do” og konurnar í bekknum unnu útfyllingarverkefni sem ég hafði undirbúið daginn áður. Ein í bekknum er enskukennari og þegar hún er að gera villur og ég leiðrétti byrjar hún að tala um öll málfræðiheitin; “oh yeah definitive article in present simple”. Ég segi bara “aha” því ég hef ekki hugmynd um hvað hún er að fara. En það er bara gaman að vera í kringum konurnar og sjá hvað þær eru áhugasamar að læra eitthvað nýtt.

Krakkarnir í enskutímanum mínum upp í Project Hope

Þegar við komum svo aftur til Nablus fengum við Tharwa okkur að borða og ég fór með henni í bankann. Ég hafði svo rúman hálftíma til að slaka á upp á skrifstofu þangað til ég átti að kenna næsta tíma. Í þeim enskutíma töluðum við um hin ýmsu lönd en ég hafði sótt upplýsingar á wikipedia og prentað út. Krakkarnir lesa hver um sig um eitt land og svo fá allir tækifæri á því að segja það sem þeir vita um umrætt land. Ég hafði svo lofað Nagham, einni konunni úr bekknum, að fara saman á Jasmin að borða. Hún sagði mér söguna af því hvernig hún og maðurinn hennar, sem er gjaldkeri Jasmin og Project Hope, kynntust og sýndi mér myndir af sér frá því hún var yngri.

Um kvöldið fór ég svo að hitta Gunna og franska meðleigandann hans og við fórum í almenningsgarðinn. Þar hittum við fyrir Project Hope sjálfboðaliðana eins og þeir leggja sig, en um þessar mundir eru um 25 alþjóðlegir sjálfboðaliðar. Við hengum þar til ellefu um kvöldið að drekka svaladrykki og reykja nargilu.

Mánudagar eru góðir, á mánudögum get ég sofið út, á mánudögum kenni ég bara einn tíma og á mánudögum er sameiginlegur kvöldmatur meðal sjálfboðaliðanna. Ég svaf til hálf ellefu, tók servís niður að Dawar og fékk mér minn daglega ávaxtakokteil. Tók því rólega, hitti Fateen og rölti um bæinn.
Hitti svo PYALARA hópinn minn kl. 14 þar sem við ræddum um ferðalög og draumaáfangastaði. Ein stelpan stakk upp á því umræðuefni. Hana langaði mest til Ísraels, sjá Haifa sem hún hefur heyrt að sé falleg og hitta fyrir Ísraela því hana langar að skilja af hverju framferði ísraelskra yfirvalda gagnvart Palestínumönnum er liðið. En staðreyndin er sú að hún má og getur ekki farið þangað, sérstaklega þar sem hún er frá Nablus. Í lok tímans þurfti ég svo að segja krökkunum að nokkrir tímar munu falla niður næstu viku vegna þess að ég sé að fara að ferðast til Jórdaníu og Egyptalands. Þau samglöddust mér þó öll og óskuðu mér góðrar ferðar. Mér fannst erfitt að “glenna” ferðafrelsinu mínu framan í þau. Þessir ungmenni hafa ekkert unnið sér til sakar.

5 comments:

krummaloa said...

guð en skemmtilegt;) ég sakna þín:(

Unknown said...

Þetta hljómar allt mjög skemmtilegt og spennandi skvís. hlakka til að sjá þig þegar þú kemur heim :)

Anonymous said...

jii þú ert dugleg og já þetta hljómar svo spennandi :) hlakka ekkert smá til að fá þig heim!!
Góða skemmtun og góða ferð til Jórdaníu og Egyptalands ;)
kv. Steinunn litla

Anonymous said...

Frábært að lesa bloggið þitt, hvað þú stendur þig vel. Eg á Ísaf að bíða eftir mömmu þinni. 4 daga að sigla þangað.
Góða ferð elsku Anna mín
Pabbi

Anonymous said...

Sæl Anna, virkilega gaman að fylgjast með ferðinni þinni. Nú líður senn að minni ferð til Palestínu (kem 7. ágúst). Ég var að velta því fyrir mér hvort við ættum ekki að mæla okkur mót áður en þú heldur heim?

Endilega hafðu samband í gegnum e-mail (aronbjk@hotmail.com) eða í gegnum sima (866-6781).

Það væri frábært ef að við gætum hist þó ekki væri nema í smá stund.

kv. Aron Björn Kristinsson.