Mynd sem sýnir framtíðar legu aðskilnaðarmúrsins
Við Íslendingarnir fórum til Haifa um síðustu helgi á ráðstefnu sem að palestínsk og alþjóðleg samtök stóðu fyrir. Á ráðstefnunni var fjallað um "eins ríkja lausnina", þ.e.a.s eitt ríki þar sem Ísraelar og Palestínumenn lifa í sátt og samlyndi og búa við sömu réttindi í einu landi. Þessi hugmynd er frekar ný af nálinni og hefur náð auknum vinsældum meðal Palestínumanna sem búa innan Ísrael proper. Hingað til hefur mikið verið rætt um svokallaða "tveggja ríkja lausn" eða "road map to peace" meðal stjórnarleiðtoga Ísraels og Palestínu með stuðningi frá Sameinuðu þjóðunum, BNA, Rússlandi og Evrópusambandinu. Sú lausn virðist hins vegar vera að renna út í sandinn enda heldur Ísraels áfram byggingu aðskilnaðarmúrsins, sem er að mestu leiti innan grænu línunnar (aðeins 20% aðskilnaðarmúrsins er á grænu línunni), leggur undir sig stöðugt meira landsvæði með stofnun ólöglegra landnemabyggða og heldur uppi stöðugum hræðsluáróðri um að Palestínumenn séu hættulegasta fólk veraldar. Meira að segja Palesínumenn sem búa í Ísrael proper tala um að Nablus sé stórhættuleg.
Við krakkarnir í sápuverksmiðjunni
Síðasta vika hefur verið ansi annasöm þar sem ég hef verið að kenna mína tíma (skyndihjálp og enskutíma) og tímana hans Abe vegna þess að hann fór til Yanoun í viku. Þar er hann að leysa af alþjóðlegu sjálfboðaliðana sem eru þar allan ársins hring. Mig langaði að kíkja til hans og vera nokkrar nætur en það var ekki hægt.
Á fimmtudaginn síðasta fórum við krakkarnir hjá Project Hope til Beit Furík, sem er rétt fyrir Nablus, að pakka sápum sem við seljum svo alþjóðlegum samtökum til fjáröflunar. Fyrsta klukkutímann var þetta bara þræl skemmtilegt en þegar leið á daginn var maður orðinn ansi þreyttur. Á leiðinni aftur til Nablus biðum við í hálftíma eftir því að fá að komast í gegnum check point-ið og einum palestínska sjálfboðaliðanum var bannað að fara gegnum check point-ið nokkru sinni aftur. Hermaðurinn gaf hins vegar enga ástæðu fyrir því.
Hermennirnir í Hebron
Talandi um hermenn...Við fórum 6 sjálboðaliðar frá Project Hope í ferð á vegum Breaking the Silence til Hebron. Í Hebron er einstakt ástand en þar búa um 400 landnemar innan um 170.000 Palestínumenn. Saga Hebron er full af skelfilegum fjöldamorðum, átökum, refsi- og hefndaraðgerðum og svo lengi mætti telja. Það sem stendur kannski mest upp úr eru Hebron fjöldamorðin 1929 og Goldstein fjöldamorðin 1994. Til að gæta öryggis í Hebron er þar um 500 hermenn sem hafa það hlutverk að vernda landnemana og um 30 lögreglumenn sem eiga að tryggja almennt öryggi. Eins og hægt er að lesa um á heimasíðu Breaking the Silence eru þetta samtök um 550 fyrrverandi hermanna sem flestir sinntu herskyldu í Hebron og vilja vekja athygli á ástandinu þar og rjúfa þögnina um það sem á sér stað. Ég þýddi smá úr bók sem inniheldur vitnisburði hermanna sem samtökin gefa út...ég er enginn atvinnuþýðandi samt sem áður:
“Síðusta árið hefur Breaking the Silence safnað vitnisburðum hundruða ísraelskra hermanna (IDF) sem sinnt hafa herskyldu á herteknu svæðunum á tímum síðustu átaka (seinni intifötu). Þessir vitnisburðir sýna þann ómögulega veruleika sem blasir við þessum hermönnunum, og þann siðferðislega toll sem þessi raunveruleiki krefst. Valið safn þessara vitnisburða hefur verið gefið út í vitnisburðasafni í nafni Breaking the Silence.
Safnið að þessu sinni er ekki bara eitt vitnisburðasafnið í viðbót sem sýnir andstyggilega rútinu raunveruleiks á hernumdu svæðunum eða sífellt brenglaðri og lægri siðferðisgildi hermannanna, heldur er sjónum beint að fyrirmælum ísraelska hersins (IDF), reglur bardaga og framkvæmd aðgerða. Safnið sýnir alvarlega mynd af því sem reynist vera títt gefnar ólöglegar skipanir á hinum ýmsu stöðum og tímum: árásir á óbreytta borgara sem ógna engum, hefndaraðgerðir, viljandi árásir á björgunarsveitir og fleira. Safnið afhjúpar dýpt siðferðislegrar spillingar meðal stjórnanda innan hersins og myrkur siðferðislegrar skynjunar sem hefur dreift sér til æðstu stjórnenda... Svo virðist vera að sjálfsskoðunarkerfi ísraelska hersins hafi einnig brugðist skyldum sínum. Þetta á einnig við um eftirlitskerfi borgara og þingsins sem hafa, á tímum undanfarinna átaka, endurtekið forðast það að gagnrýna almennar aðfarir hersins, og þá sérstaklega hvað varar reglur bardaga... Siðmenntað og mannsæmandi samfélag getur ekki viðhaldist án stöðugs eftirlits og gagnrýni öflugustu stofnana sem stafa innan þess. Breaking the Silence krefst þess vegna að stofnuð verði sjálfstæð nefnd almenningseftirlits, sem mun virkja ábyrrgðarfulla afhjúpun og rannsókn á staðreyndum.
Það að hlusta og axla ábyrgð er það allra minnsta sem ætlast er til af samfélagi og fulltrúum þess í siðmenntuðu og mannsæmandi samfélagi sem byggt er á grunvallar siðferðilegum gildum. “
Vitni: Starfsmannaliðþjálfi, Paratroops
Staður atviks: Nablus
Dagsetning: lok 2003
Það var aðgerð þar sem við áttum að fara inn í borgina. Við kölluðum aðgerðina “Yossi Bachar’s terror show”. Yossi Bachar var tekin við af Aviv Kohavi. Þú veist, allir nýjir flokksforingjar (brigade commander) vilja skilja eftir sig far, vilja byrja með stæl. Hann kom okkur í algerlega tilgangslausa aðgerð...og í lok þessarar aðgerðar kom að því að við komum fyrir svokölluðum ‘New Jersey’ vegatálmum, þessum plast vegatálmum. Þannig að við vorum að koma þessum ‘New Jersey’ vegatálmum fyrir, og liðsveitarforinginn (battalion commander) gaf fyrirmæli...vegna þess að settum vagatálmana til þess að stöðva umferð...í Nablus...Svo ég komi mér að efninu, við komum þessum vegatálmum fyrir og krakkarnir þar, þessir sem eru alltaf að kasta steinum, komu og færðu vegatálmana úr stað. Þetta var alger óreiða. Við gátum ekki...Í upphafi settum við vegatálmana og íbúarnir fjarlægðu þá, þannig að við settum þá aftur á sinn stað, og svo voru uppþot og steinum var kastað og þar varð alger óreiða. Þá gaf liðsveitarforinginn fyrirmæli: ‘Hver sá sem snertir vegatálmana á að skjóta í fæturnar’. Alvöru skot. Skjóta fæturna. Við áttum, ég átti, að gera það. Í herbílnum töluðum við saman, og við spurðum hvort hann væri genginn af göflunum; ef einhver snertir vegatálma – eigum við að skjóta hann í fótinn? Við héldum að hann væri bara að grínast. Liðsveitarforinginn fannst greinilega mjög mikilvægt að setja persónulegt fordæmi. Á vegartálma kom hann að – ég var ekki persónulega þar, en krakkarnir úr foringjasveitinni (commanding crew)...Þetta var reyndar þekkt mál: maðurinn ók jeppa við hlið vegatálma og sá krakka snerta hann – úr einhverri fjarlægð víst – og miðaði á fótinn á krakkanum. En, þú veist, í stað þess að hitta krakkann í fótinn hitti hann í bringuna á honum, og drap hann. Fyrir að snerta vegatálma. Ef þú afsakar mig, þá finnst mér það að snerta vegatálma ekki vera ástæða til að vera drepinn.
Hvernig vissuru að krakkinn væri dauður?
Heyrði það. En krakkinn er dáinn. Þetta er vel þekkt saga. Við komum aftur að herstöðinni eftir aðgerðina, við töluðum saman, og svo sögðu krakkarnir sem voru með foringjasveitinni: ‘Hey krakkar, *** drap krakka, krakkamorðingi, krakkamorðingi, hann drap krakka.’ Þau sögðu okkur söguna. Fólk sem sá þetta gerast. Ég er nokkuð viss. Ég held að enginn hafi farið og athugað púlsinn hjá krakkanum, en fáir krakkar lifa það af að vera skotnir í bringuna.”
Bæði hermenn og lögregla þurfti að vernda hópinn gegn ágangi landnema
Móttökur landnemanna í Hebron voru vægast sagt ýktar. Um leið og rútan okkar kom að check point-inu inn í Hebron hljóp að okkur hópum landnema og byrjaði að áreita hópinn með öskrum og látum. Okkur var sagt áður en við fórum út úr rútunni vorum við vinsamlegast beðinn um að svara ekki landnemunum, það væri nákvæmlega það sem þeir vildu. Ég var spurð hvar amma mín og afi hafi verið fyrir 60 árum, af hverju ættingjum mínum fyndist gaman að drepa gyðinga, hvort mig langaði til að drepa alla gyðinga, hver borgaði mér fyrir að koma hingað, hvað ég tæki mikið fyrir nóttina (sem átti örugglega að gefa í skyn að ég væri hóra), af hverju ég væri að reyna að stela landinu þeirra, af hverju ég væri svona heimsk, af hverju ég kæmi til Hebron þar sem kristnir eigi engan rétt á því og ásamt fleiri spurningum sem ég skyldi ekki alveg...eitthvað um að ég hafi ekki verið fædd þegar Jesú var þar eða eitthvað álíka.
Það er rosalega erfitt að lýsa því sem maður sá og fann í Hebron þannig að ég ætla að leyfa nokkrum staðreyndum að fylgja með hérna í lokin:
*Að minnsta kosti 1.014 palestínsk hús, eða um 42% íbúða í miðbæ Hebron, hafa verið yfirgefin. 65% eða 659 tómu íbúðanna voru yfirgefnar í seinni intifötunni.
*Af þeim palestínsku rekstrum sem voru á svæðinu, er um 1.829 þeirra, eða 77% lokuð. Þar af var um 62% (1.141) lokað í seinni intifötunni og af þeim var a.m.k 440 lokað samkvæmt fyrirmælum hersins.
*Frá upphafi seinni intifötunnar og þangað til í maí 2007 hafa palestínumenn í Hebron drepið 5 óbreytta ísraelska borgara, þar á meðal 11 mánaða gamalt barn, og 17 meðlimi ísraelskra öryggissveita.
*Á sama tíma drápu ísraelskar öryggissveitir í Hebron a.m.k 88 Palestínumenn, þ.á.m 46 sem (líka ungmenni) sem ekki tóku þátt í átökum. Auk þess voru tveir Palestínumenn drepnir af ísraelskum óbreyttum borgurum: einn strax eftir að hann drap landnema og hinn var 14 ára stúlka sem var skotin heima hjá sér.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Rosalegt að lesa þetta.
Sæl elsku Anna. Íris var aðlesa fyrir mig og ég hlustaði af andakt. Hún skilur svo vel hvað það er að vera arabi.Ekki ég. Ég veit ekki hver er hvað þarna og finnst það miður. En ég er eins og fleiri löngu hætt að skilja af hverju bandaríkjamenn styðja við bakið á ísraelsmönnun. Meira að segja ætlar Barak að halda óbreyttri utanríkisstefnu. En við óskum þér alls hins besta. Íris segir okkur fréttir og opnar bloggið þitt reglulega. Kata og Íris
Jahérna.
Mikið ertu dugleg Anna mín.
Hef reynt að hringja í númerið sem þú gafst mér upp en það kemur útlensk kona á hinn endan sem segir mér eitthvað sem ég ekki skil.
Gangi þér áfram vel.
Post a Comment